Sunday, December 10, 2006

Sextándi Listapistill

List er leikur.
Það er mannskepnunni nauðsynlegt að leika sér. List er ákjósanlegur leikur.
Öll leikum við einhverntíma leikinn á okkar hátt, gleymum því ekki að það er líka þátttaka að þiggja.
Það er ekki ráðlegt að spyrja : “ Er þetta list “, en samt er spurningin eðlileg.
Ég held, að þá aðeins sé von á listaverki, að listamaðurinn leiki listaleikinn af þrótti, einlægni og innlifun.
Listsköpun er vissulega einmanalegt starf, en það er þó allténd eitthvað sem listamaður gerir af áhuga. Það fer enginn í listsköpun vegna þess að það bauðst ekkert betra.
Listsköpun getur verið erfið, en það er hjákátlegt af listamönnum að barma sér yfir því á blaðatorgum.
Hroki hentar ekki list, þeir sem gefa sér það að vera frábærir eru fáráðir.
List getur tendrað ást, heift, grátur og gleði og list getur líka hneykslað, en það er unggæðingslegt í meira lagi að ætla sér að hneyksla með listinni.
Listaverk geta vitaskuld vakið allar kenndir tilfinningalitrófsins vegna þess að listsköpun endurspeglar það allt.
Hitt er svo annað mál hvort nokkru sinni er hægt að skilja list til hlýtar. Skilur einhver tilfinningar ?

Ég lýk þessum pistlum með vitnun í Þorstein Gylfason, sem svaraði spurningunni um það hvort hægt væri að skilja list, nokkurnveginn svona ; að það væri einungis hægt á þann hátt, að maður skildi list eins og maður skilur brandara.
Pælið í þessu.

Pælið í list.

Fimmtándi Listapistill

List já, æ hvað er það nú eiginlega .- “vitið þér hvað það er mér er það hulið “ (megas)-

Ég held að mér beri skylda til þess hér og nú að upplýsa að það er einfaldlega ekki til nein mælistika sem mælir listamark hluta.
En ýmis viðmið verða að vera grunnþættir í listkjörþokka. Til dæmis verður skapari verksins að hafa haft einbeittan vilja til að skapa list, hugmynd sem er einhvers virði ( en það er nú oft með hugmyndir einsog þokuna hvorutveggja vill gufa upp ) og handverkið verður líka að styðja hugmyndina. – Myndlistarmenn fá oft alvöru handverksmenn til að vinna fyrir sig svo handverkið verði við hæfi, en þá þarf hugmyndin líka að vera skotheld.
Það er þó ekki nóg að segja að list sé að gera hlutina vel ( sbr yrðingu Þorsteins Gylfasonar “menning er að gera hlutina vel” ), það eru mörg dæmi um stórkostleg listaverk sem eru afar illa gerð.
En listaverk þarf sinn tíma til að snerta þannig sálarlíf margra að listljósið leyni sér ekki. – Með áherslu minni á þátt tímans í því að gera verk að list, á ég ef til vill við að það taki tíma fyrir lærða og leika að sammælast um meðvitund fyrir listaverki. ( Stundum segja allir við fyrstu sýn : “þetta er snilld” og halda því áfram allt til ragnarraka, en það afsannar ekki kenninguna ) -.
Og það er hroki að halda sig hafa svo góðan smekk, að viðkomandi búi yfir hinum eina sanna skilningi á list. Þeir sem halda sig hafa þann skilning skortir víðsýni.

List er samt mannskepnunni nauðsynleg og allir hafa skoðun á og vilja vera skapandi eða túlkandi listamenn. Ég ætla ekki að eyða plássi í að tala um muninn á skapandi og túlkandi list. Veltum bara fyrir okkur : Er skapandi listamaður frjáls ? Er túlkandi listamaður heftur af nótunum, textanum eða öðru því sem hann túlkar ?

Og sumir vilja vera gagnrýnendur, en það er nú erfiðast ef vel á að vera, gagnrýnandi þarf að vita, þora og geta. Sumir gagnrýnendur eru bara grafarar sem afskrifa án íhygli, aðrir halda að þeir séu vídeóvélar og lýsa bara því sem þeir sáu eða heyrðu, en gagnrýnendur sem geta bent á, skilgreint og leiðbeint hafa ef til vill dágóða innsýn í list.

En ætli listin sé ekki bara einsog að hjóla á reiðhjóli. Með smá áreynslu kemst maður milli staða, en fyrst og fremst er þetta spurning um að læra að halda jafnvægi.

Saturday, December 09, 2006

Fjórtándi Listapistill

Blindur er bóklaus maður. Basta.

Þessi pistill þyrfti ekki að vera lengri.
En eitthvað smálítið ætla ég að fjalla um það mikla bákn bókmenntir. Orðið sjálft á íslenskunni er ekki gagnsætt. Bókmenntir er látið merkja það sama og “ litterature “, sem vísar meira til þess að skrifa. Skrifmenntir væri nær lagi. Ritlist nær þessu nokkuð vel.
En uppruni bókmennta kemur hinsvegar hinu ritaða orði ekki við. Sagnalistin er jafngömul tungumáli. Sögur lifðu í munnmælum ættlið eftir ættlið og ef þær voru góðar lifðu þær jafnvel ættbálka. En sögurnar tóku sífelldum breytingum, því sagnameistarar sniðu vankanta af þeim og þróuðu áfram. Jafnvel eftir að tekið var að festa sögur í kvæði breyttust þær líka í ára-og aldanna rás. En þetta snérist þó um það að segja sögur og segja fréttir, jafnvel færa nýjustu fréttir í kvæði sem voru munntöm.

Upphaf hins ritaða máls breytti ekki miklu fyrir sagnaþulina. Ritmálið var í öndverðu, að því er virðist eingöngu notað af kaupmönnum og fundið upp til að auðvelda þeim vörutalninguna. Enda voru leirtöflur og steinhellur aldrei sagnameistaratól. Það má segja að fyrst með tilkomu almennilegrar skinnasútunar og bleks hafi þeir skrifandi skáldmæltu getað farið að nýta sér ritmálið. Pappírinn galopnaði svo skáldakranann.
Sagnirnar lifðu samt áfram í kvæðunum munn fram af munni. En svo fóru þeir sem áttu mikið skinn og blek að láta skrásetja þessar gömlu sögur og ljóð og jafnvel láta eina og eina úr samtímanum fylgja með.
En ritlistin var lengi lengi hin mikla list skrifaranna, þeirra sem kunnu á bókfellið. Það varð þeim keppikefli að hver síða í handriti væri flott. Skrifararnir voru í raun að fást við myndlist. Og bækurnar eftir að þær komu til voru langt fram eftir öldum innbundnar svo með skrauti og gyllingum, að það fór ekki á milli mála að bókagerðarmenn voru að gera eithvað til að gleðja augað. Það eimir enn eftir af þessu, en bókaskreytingar nútímans og kápumyndir sýna einungis sorglega afturför í frágangi bóka.

En það er innvolsið sem skiptir máli og svo fljótt sé farið yfir sögu er sagt að Cervantes hafi markað upphaf nútímabókmennta með því að skálda algjörlega upp sögupersónur sínar. Þar skildi á milli Feigs og Ófeigs, því kvæðin og sögurnar höfðu fram að því mestmegnis verið um kónga og raunverulegar prinsessur og þó drekar kæmu oft við sögu voru þeir ákaflega raunverulegir í hugum fólks í den.

Og nú er ritlistin öllum frjáls og sífellt koma út fleiri og fleiri bækur, sem færri og færri lesa. Og alltaf er verið að skrifa. Tölvuvæðingin býr svo um hnútana að þegar fólk er ekki að kjafta saman í síma getur það verið í tölvusamskiptum, jafnvel gert hvorutveggja í einu. ( Táningar að tala í síma og skrifa á MSN í tölvunni samtímis er ekki óalgeng sjón á táningaheimilum ) og það eru SMS skilaboðin sem eru hnýtt í styttingar og dulmál rétt einsog skinnhandritin. Og svo bætist bloggið við. Jedúddamía.

Allir eru allt í einu að skrifa, en eftir sem áður ákaflega fáir sem skrifa “ Litterature “.

Wednesday, December 06, 2006

Þrettándi Listapistill


Hverjum þykir sinn fugl fagur.
Þetta á náttúrlega við um listir sem annað. Í myndlist vill vaða uppi hinn unggæðingslegi hroki, að gamlar aðferðir séu ónýtar. Ritlistarmenn deila um ágæti síns máls. Ljóðið er toppurinn segja þeir sem fást við það. En stóryrtastir allra vilja þó vera tónlistarmenn.
“Tónlistin er göfugust allra lista”, er setning sem fer oft á flug og tónlistarmenn og unnendur telja yrðinguna ekki vera skoðun heldur staðreynd. En tónlist er list nótugæjanna. Alþýðutónlist verður ekki list nema einhvað tónskáldið finni þjóðlag og færi það úr dúr í moll og menn halda ekki vatni.
Ópera mun svo vera langefst í tónlistapýramídanum.
Gamall vinur sagði eitt sinn í mín eyru, að það væri undarlegt með óperusýningar. Boðið væri upp á í flestum tilfellum lélega myndlist (leiktjöld og búningar ), lélegan og oft hjákátlegan leik ( tenór með bumbuna niður á hné sem Rómeó að biðla til Júlíu sópran sem kemst varla fyrir á sviðinu ), en tónlistin og söngurinn og samruni þessa alls gerði þetta að himneskri upplifun.

Tónlist er líka alltumlykjandi einsog myndlistin, svo mætti ég stundum biðja um ÞÖGN. Hvers vegna er fólk svona hrætt við þögnina. Er ekki hægt að tala saman án tónlistar í bakgrunni. Má ekki bregða sér bæjarleið í bílnum án þess að þenja græjurnar. Og hversvegna í ósköpunum er ekki hægt að sýna neitt í bíó eða sjónvarpi án þess að keyra tónlist yfir ? Myndir af myndlistasýningu á sjónvarpsskjánum eru þær óhugsandi án strengjakvartetts ? Þarf landslag synfóníu til þess að við skiljum ? “Já nú sé ég að þetta er sú fimmta og fjall”.
Eða er bara verið að hamra þann boðskap inní undirmeðvitundina að tónlistin sé á toppnum.

Tólfti Listapistill


Myndlist er frekust allra listgreina. Enda kanski ekki skrýtið að hún belgi sig, það verður nefnilega ekki þverfótað fyrir myndlist. Öll sýnileg mannanna verk eru einfaldlega á einhvern hátt tengd myndlist.
Myndlist er svo alltumlykjandi, að orðið List táknar í hugum margra Myndlist. Saga Listarinnar fjallar bara um myndlist. Við tölum um bókmenntir og listir, en segjumst samt ekki vera að afneita bókmenntum sem listgrein. Á “móðurtungunni” ensku er Art ( þýtt list ) einungis notað um myndlist, en The Arts eru listir almennt. Listasafnið á Akureyri er ekki gömul stofnun, en fyrir myndlist eingöngu, heitir þó ekki Myndlistasafn. Safnið hefur haft tvo forstöðumenn og það er gaman að hugsa til þess að stór hluti af jómfrúaropnunarræðum þeirra var samhljóða, sem sé undirstrikunin á því að myndlistin væri allsstaðar. Við göngum í myndlist, ökum í myndlist, búum í myndlist, jafnvel minnstu smáatriði lífs okkar væru háð myndlist, klipping og förðun, gleraugu, klukkur, hnífapör og nærbuxur.
Myndlist og tíska eru í eilífum fullnægingarlitlum samförum. Það er heimtað nýtt, nýtt, nýtt, nýtt, nýtt – fjandinn hafi það þótt það nýja sé gamalt – og það er heimtað meira. En svona verður þetta að vera og einstaka sinnum er það nýja spennandi, jafnvel fyrir gamla íhaldssama jálka.

Myndlist er vissulega rígmontin, en það er eðli þeirra sem eru uppá hól að hreykja sér. Og fyrir myndlistina er öll veröldin rými. ( Rými er reyndar hugtak sem myndlistarmenn sérstaklega hafa misnotað svo mjög að . . . . “afsakið meðan að ég æli” .)
En reyndar getum við ekki neitað því, að alheimurinn er ansi verkleg innsetning.

Ellefti Listapistill

Ef Darwin hefði hefði verið listrýnir og ritað um uppruna tegundanna út frá þróun listarinnar, myndi rit hans varla hafa valdið hatrömmum deilum, vegna þess að þó list sé skírt dæmi um endalausa þróun tegundanna dettur fjandakornið engum í hug að hún verði ekki til við sköpun, jafnvel svolítið guðlega svo mjög er listin upphafin.

Eitthvað agnarsmátt upphaf er allri listsköpun sögunnar sameiginlegt, einhverskonar pirrandi litningur á sálinni. Við eigum að sjálfsögðu ekki möguleika á að rekja söguna frá upphafi listþróunar þó vissulega sé urmull steingervinga í farveginum, en víst er að einhverntíma í fyrndinni hefur fólkinu ekki fundist nóg að éta eða vera étin, sofa og eðlast. Það þróaði með sér tungumál til að segja frá, einhver fór að humma eða berja einhverju í eitthvað og svo þegar eldurinn var orðinn almenningseign var hægt að maka eitthvað með sóti eða kolaðri spýtu. Listin þarf ekki svo mikið.
En kanski má ekki kalla þessi fyrstu villuráfandi skref listsköpun, því einsog við munum þá varð listhugtakið ekki til fyrr en í Evrópu svo ævintýralega löngu eftir upphafið. Síðan er líka liðinn nokkur tími og fólki hættir til að gleyma að þróunin hafi átt sér upphaf.

Auðvitað á list allt sameiginlegt með annarri þróun tegunda. Útfrá fyrsta listaeinfryminu hafa sprottið margir tegundaflokkar, listgreinar, og sérhver tegund kvíslast í margar ættir, stútfullar af stefnum og flokkum, skapandi og túlkandi. Einsog í þróun dýra og planta hafa listgreinar staðnað á þróunarbrautinni, sumar tegundir dáið út aðrar þróast enn og enginn sér fyrir endann fremur en upphafið.Víst um það að listin á sína krókódíla og risaeðlur. Listin á líka samsvörun við allan þann aragrúa af finkum sem þróast hafa eftir því hvar og hvað þær éta.

Og listin á líka sínar rottur og menn.

Wednesday, November 29, 2006

Tíundi Listapistill

Tilhvers skapa listamenn list ?
Þegar stórt er spurt verður fátt um greindarleg svör. Reyndar er oft pínlegt að heyra listamenn úrskýra “ tilhversið “ sem þeir vinna útfrá. Enda kanski ekki alltaf auðvelt að koma orðum að því, sem er bara óljós hugmynd eða agnarsmár leiðarhnoði. En þetta með "tilhversið “ er samt aðalatriðið í listsköpun, manni finnst alla vega það vera þunnur þrettándi viti listamaður ekki til hvers hann er að skapa.

En sumir vilja meina að í upphafi hafi listin snúist um og verið tengd fegurðinni órjúfanlegum böndum og þá hefur nú verið þægilegt að gefa upp “ tilhversið “.
List hefur reyndar frá öndverðu verið bæði falleg sem ljót og algjör misskilningur að samsama list fegurðinni, en þetta er lífsseig hugsanavilla ( ef til vill þýðingarvilla einsog meyfæðingin, sem er þó önnur saga ). Og því tala menn í alvöru um að listin hafi verið frelsuð undan viðjum fegurðarinar svo seint sem um aldamótin 1800 og þar hafi heimspekingurinn Immanúel Kant komið við sögu. Og þá fór nú í verra, eftir það hafi listamenn þurft að úskýra hversvegna þeir væru að gera eitthvað sem ekki var fagurt. Og um það bil hundrað árum síðar muldraði einhver þreyttur listamaður í skeggið, að list þyrfti ekki að útskýra listin væri ekki til neins, hún væri bara fyrir listina. Og þetta gripu listamenn/listrýnendur á lofti og hafa hampað síðan af mismiklum þrótti þó. Þetta er reyndar nokkuð traust haldreipi og með það fastbundið þarf ekki að útskýra meir. Listin er fyrir listina skilurðu ? Þannig verður listahugtakið; að listaverk sé einungis það sem hefur list að markmiði annað markmið skapi ekki list. Því er verk sem hefur það að markmiði að fólk grípi andann á lofti ekki list nema loftandagrip verði flokkað sem list. Þetta er nú ekki gott nema rétt þann litla spöl sem það nær.
Listin fyrir listina hljómar í mínum huga sem ósköp klént yfirklór. Því listin getur aldrei staðið ein og í raun og veru verður list ekki endanlega til fyrren einhver nýtur hennar. Hvernig getur hún þá verið fyrir sjálfa sig eingöngu ?
Nei listin er fyrir listina, listafólk, listaáhugafólk, listalíf, listasnobb, listahús, listagagnrýnendur, listaandstæðinga, listavini og allt sem með list tjáir að nefna. Listin er spegill sálar og samfélags og listin er í eðli sínu úthverf, þó “ tilhversið ” búi innra með hverjum listamanni.

Á það ber þó að líta að vitaskuld þarf að styrkja innviði listarinnar með listalími. En “ tilhversið “ í listinni má ekki og getur ekki verið að reisa innmúraða fílabeinsturna. Það er grafhýsi.

Tuesday, November 28, 2006

Níundi Listapistill


Hvað í ósköpununum skyldi fá allan þennan aragrúa fólks, sem raun ber vitni, til að reyna sig í listinni ? Hvað eru milljónirnar að vilja í listaskóla til að nema og skapa list og hvað fær ennþá stærri skara til að dubla við listina óskólalært og óumbeðið ? Hvers vegna er blessað fólkið að þessu ? Ekki getur það verið peningavonin. Það eru giska fáir sem lifa sældarlífi af listinni. Og algengt er með endemum að heyra listamenn, sem reyna að lifa af þessu, básúna hversu erfitt það sé, fórnfúst og einmanalegt starf vera á kafi í listsköpun, en geta ekki annað. Slíkt tal hefur samt aldrei fælt aðra frá því að reyna.
En við getum gefið okkur það að sköpunarþrá sé fólki í blóð borin. Til dæmis er matargerð nauðsynleg, svo og handverk hverskonar, barneignir og uppeldi, allt sköpun.
Listamenn fara oft upp fyrir þrána og tala um sköpunarþörfina, en það er nú held ég bara til að sýnast, því listamennsku fylgir sýniþörf. Mýtan um skúffuskáldin og málarana sem mála fyrir geymsluna er lygi, allir sem skapa þrá að sýna afraksturinn þó kanski flestir þori ekki og/eða hafa vit á að gera það ekki.
Með ástundun og ástríðu verður sköpunarþráin að þörf. Ekkert merkilegt við það.

Er það ef til vill æxlunarþrá hjá öllum þessum milljónum manna sem einhverntíma á lífsleiðinni reyna við listagyðjuna ? Eða þykir það töff að standa á móti straumnum með listamennsku að leiðarljósi, meðan aðrir standa hvæsandi “ er það nú list “ ? Hinir síðarnefndu gera sér þá væntanlega ekki grein fyrir því að hafa fyrirframskoðanir á og eru beinlýnis að hugsa um list. Þegar öllu er á botninn hvolft virðast nefnilega allir vera að einhverju marki með list og listamennsku á heilanum og fólk virðist hafa jafnmikinn áhuga á að viðra skoðanir sínar á list og listamenn að viðra verk sín.
Listin er bara svona afskaplega spennandi, hjákátleg, alltumlykjandi, nauðsynleg/ónauðsynleg, ógnvekjandi, hjartastyrkjandi og bráðdrepandi, að þetta virðist nánast vera ein af grunnþörfum mannskepnunnar að fá sína fimmtán mínútna frægð sem listamaður/listagagnrýnandi.
Allt saman kanski komið til vegna þess að snobbaðir handverksmenn endurreisnar, sem vildu bera kjarnmeiri titil, byrjuðu ómeðvitað að ýta listinni uppfyrir guð í goggunarröðinni.

Sunday, November 19, 2006

Áttundi Listapistill

Þetta er persónulegur pistill.

Þegar menn velta upp hugtökum einsog list og listamennsku finnst mér þurfa að segja með hvaða augum höfundur lítur á eigið silfur, það gera fæstir enda meintir fræðingar. Ég reyni.
Skömmu eftir stofnun Gilfélagsins, þegar landnám var langt komið í mjólkursamlaginu og víðar í verksmiðjum KEA í Grófargili, var smalað í útvarpsþátt og við sem máttum mæla fyrir listrænni þögn, spurð um eitt og annað og látin syngja og spila eftir getu. Útvarpskona spurði mig hvers konar listamaður ég væri. Ég svaraði að ég liti ekki á mig sem listamann heldur handverksmann. Konan nærri kokgleypti hljóðnemann og ætlaði aldrei að finna aðra spurningu. Það var víst óheyrt að einhver afneitaði því tækifæri að básúna í útvarpinu hversu mikill listamaður hann væri. Kunningi minn sem er stofnandi Myndlistaskólans og annar guðfaðir Listagilsins kallaði mig lengi eftir handverksmanninn.

Síðan hafa aðrir hanar galað oftar en tvisvar en ég verið í sömu afneitun.

Ég neita því samt ekki að hafa daðrað oft og stíft við listagyðjuna og stundum fundist ég hafa hana undir, en sjaldan vaknað með hana við síðuna á mér og þótt ég reyni stundum við hana gleymi ég henni líka alveg þess á milli, svo hún getur ekki talist mín, né ég hennar.
Ég dunda mér við að búa ýmislegt til og þegar vel stendur á gef ég frá mér hljóð sem minna á söng og stundum finnst mér ég jafnvel standa mig svo vel að minn innri maður segir : “sjáðu til þetta gastu”, en það er engin ávísun á né vænting um alltaf. Ég hef jafngaman að því að smíða bókahillu og eitthvað annað sem puntað getur veggi og lít á það sem samskonar verk, sem ég reyni að vinna af alúð, jafnvel ástúð og þannig er og verður það.

Mér þótti vænt um að lesa fyrir stuttu viðtal við leikara sem nánast alltaf fær lof fyrir sína vinnu. Hann sagðist nálgast hlutina sem handverksmaður. Hann kynni ýmislegt, bætti við innsæi og vinnusemi og reyndi þannig að skila sínu verki vel. Ef öðrum þætti það takast væri það vel, en aldrei væri róið á lofið.

Sjöundi Listapistill


Það er best að viðurkenna það strax. Það getur assskotakornið engin listaspíra tapað á því að stunda nám í listaskólum. Samt kenna listaskólar ekki eiginlega listamennsku, en þeir geta hjálpað fólki að verða listamenn. Í skólum er kennd tækni og leiðir og það sem mest er vert ef vel tekst til, þeir víkka sjóndeildarhring nemendanna. Þess vegna er listnám ábyggilega hollt veganesti útí lífið, þótt flestir sem ganga í gegnum jafnvel langt og strangt nám, verði aldrei listamenn.
Það er með listamennskuna einsog flest spennandi að fleiri vilja fara á´ana en komast í´ana. Listaneistinn sjálfur er meðfæddur ( sjá um gyðjunnar gáfur í öðrum pistli ). Þessa gáfu er síðan hægt að styrkja og fága með námi og iðjusemi. Allir raunverulegir listamenn eru menntaðir á sinn hátt hvort sem þeir hafa gengið í listaskóla eður ei.
Málið er síðan að án ástundunar verður eðlilega engin listsköpun. Gyðjunnar gáfur svo nauðsynlegar sem þær eru skapa einar og sér ekki list. Innblásturinn kemur listamanni aldrei alla leið, en verður samt að vera til staðar, því afköst ein og sér eru heldur ekki list.
Listaleikurinn er sambland af fundvísi og púli og hlýtur að vera bæði skemmtilegur og spennandi, sem sést best á því hve ótal margir vilja leika.

Við íslendingar erum voða mikið fyrir að sýnast. Þess vegna er algengt að fólk skreyti sig með hégómleikans fjöðrum. Þeir sem hafa gengið í listaskóla kalla sig listamenn jafnvel eftir 20 ár, án listaástundunar.
Allir segjumst við hafa kveðið Lilju.
Dönsk vinkona mín kom eitt sinn til Íslands með kærasta sínum og hann kynnti hana fyrir vinum sínum. Allir gengust við listamennskutitli, voru skáld, leikarar og myndlistamenn og þar fram eftir götunum ( afrekin á listasviðinu voru þó ekki alltaf í samræmi við væntingar ). En sú danska spurði loks í forundran hvort það væri ekkert venjulegt fólk á Íslandi.
Á Stór-Akureyrarsvæðinu eru ansi margir sem vilja bera titilinn, en ég fullyrði að listamenn séu þó færri hér en fingurnir á Sigga 7up.

Tuesday, November 07, 2006

Sjötti Listapistill

Þegar kemur að því að meta listrænt gildi verka eru margir tilkallaðir en fáir útvaldir einsog gengur. Samt er það bara tíminn sem getur skorið úr um slíkt. Tíminn er nefnilega enginn staðbundinn hæstiréttur og yfir flokkadrætti hafinn.
En það tekur tímann sinn að þekkja listina. Þannig lenda listamenn, sem fyrir til dæmis hundrað árum var hampað sem miklum snillingum, í því að þekkjast nú lítt og verk þeirra fá varla línu í listasögunni. En þá ber svo við að tíminn hefur ef til vill hafið upp verk þess sem á sínum tíma var óþekktur og verk hans nú ekki aðeins kafli í listasögunni, heldur endalausir hillumetrar.
En tíminn stoppar þó ekki staðbundinn nútímann í að dæma um hvað er góð list og vond eða engin. Skárra væri það nú, en meinið við listgagnrýni líðandi stundar, að hún er algjörlega háð smekk og tísku.
Smekkur einstaklinga er misjafn að vonum, en þeir sem gefa tóninn um listrænan smekk ( t.d. gagnrýnendur ) gefa sér um leið að hafa betri smekk en flestir. Kanski í krafti menntunar og reynslu, en eru samt sjálfskipaðir álitsgjafar og geta því varla gert tilkall til að hafa hinn endanlega smekk. En stundum stinga svona fírar nösunum uppí regnið og segjast samt vita betur.
Samtímalist er alltaf háð tískustefnum. Bylgjurnar ber á strendur og þær sogast út aftur með jöfnu millibili. Það er svosem allt í lagi fyrir listamenn að lenda í tískunni, meinið að hún er alltaf ákveðin fyrirfram. Það er nánast gefin út yfirlýsing: "Stefnan er hólar" og allt að því flestir álpast uppá hól. Sumir ná árangri á sínum hól en hoppa svo á fjall sem verður línan næst og svo koll af kolli meðan sumir eru kanski fastir í dalnum sem tröllreið listalífinu þar áður og forpokast þar.
Trúa mín er sú að þeir listamenn, sem halda sig einsog iðinn skóari við sinn leist og þróa sjálfir sína stefnu og stíl nái þegar tíminn telur til tekna mestum árangri.

Thursday, November 02, 2006

Fimmti Listapistill

En hvað skyldi nú hafa breyst þarna á endurreisnartímum, þegar handverksmenn sumir fóru að kallast listamenn ? Það var nú harla fátt. Sumir sagnfræðigárungar vilja reyndar meina að handverksmeistarar hafi viljað verða aðalsmenn og listamaður væri allavega flottari titil en handverksmaður (eimir eftir af þessari hugsun enn ? ). Látum það liggja á milli hluta að sinni.
Því áfram héldu menn að læra iðnina/listina hjá þar til bærum meisturum. Og sérstaklega í myndlist breyttist lítið í meistara/lærlingakerfinu fram undir tuttugustu öldina. Lærlingar máluðu bakgrunna og voru í grófvinnunni við stytturnar, en meistarinn ( listamaðurinn ) rak að síðustu listrænan rembingskoss á verkið.
En það sem breyttist var þó það sem til lengri tíma litið skipti máli.
Hugarfarið.
Þegar tíminn hafði talað til kynslóð eftir kynslóð fór hugmyndin um list að gera sig í kolli nógu margra. Samt eru mörkin milli listar og handverks enn óskýr og því miður bæta sumir listamenn ekki úr skák með því að sveipa listina merkilegheitablæju, sem gerir aðeins innvígðum kleyft að líta innfyrir.
Helsti sigur listarinnar er þó sjálfstæði hugmyndanna.
Þegar listamenn fara að gera verk sín óháð fyrirfram pöntunum og forskrift öðlast listin eigið líf.
List þarf sem sé ekki annað notagildi en sjálfa sig.
Ef þetta hljómar einsog vinstra og hægra heilahveli sé lamið saman, þá er það hið besta mál, en ég lýk þessum pisli með útskýringardæmi:
Þegar vegagerðarmaður leggur veg liggur hann milli staða, það er tilgangurinn.
Þegar listamaður leggur veg liggur hann helst ekki neitt - nema áfram.

Tuesday, October 31, 2006

Fjórði Listapistill

Er þetta list ? Það var þá listin. Svona höfum við oft heyrt krauma í sýningargestum á listviðburðum, jafnvel hugsað svona sjálf.
Og svona hefur þetta verið og mun verða.
En það er erfitt að ræða um list nema að gera sér grein fyrir því að sköpunaráráttan hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda, en það er aðeins tíminn sem er mælikvarði á hvað er list.
En hvernig getur tíminn sem gerir vart annað en að líða verið mælikvarði ?
Í listasögunni er oft miðað við, að meðvituð listsköpun slái í gegn með Endurreisninni á Ítalíu á 14. öld, en hún var þegar að er gáð endurreisn á viðhorfum til lista sem ku hafa ríkt á gullöld Grikkja og Rómverja. Á milli hinnar gömlu reisnar og endurreisnar voru viðhorfin til sköpunar aðallega trúarleg, menn reistu sínar styttur og hallir, skrifuðu bókrullur, máluðu á veggi og sungu og slóu tóna og takt sem handverksmenn í garði guðsins. Og á gullöldinni var þessi handverkshugun svo sem einnig ríkjandi. Það voru handverksmenn sem tóku niður pantanir að verkum :
Vantar texta fyrir tuttugu manna kór með grímur ? Við bætum því á bókrulluna. Og bókrullugerðarmenn, oftast nafnlausir, ydduðu sinn stíl, gerðu blek og bjuggu til sögu um vandamál guðanna í mannheimum. Þarftu 20 feta háa marmarastyttu af Neptúnusi ? Tilbúin eftir tuttugu ár. Og svo fór styttusmiðurinn af stað með sinn hamar og meitil einsog hann hafði lært af föður sínum, frænda eða öðrum styttumeistara.
En svo var það sennilega þarna á Ítalíu endurreisnarinnar að hugsuðir fóru að nefna iðn þessara handsverksmanna LIST. Og tíminn, sem staldraði ekkert lengur við Endurreisnina en annað, hafði síðan í farteski sínu þessa hugsun: Að allir þessir styttusmiðir, bókrullubéusar, málningarmakarar og hljómsláttarmenn og hvað þetta heitir nú allt væru Listamenn og iðn þeirra Listsköpun.

Sunday, October 29, 2006

Þriðji Listapistill

Áður en lengra er haldið er best að segja það einsog það er: Listsköpun er meðvitað ferli.
Rétt einsog húsasmiður hefur frá byrjun í hyggju að skapa hús og vegagerðarmaður veg, vinnur listamaður að listsköpun. Í ákaflega grófum dráttum getur því ekkert verið eða orðið list nema höfundurinn hafi meðvitað skapað eða reynt að skapa list. Börn skapa því ekki list með pári sínu nema þeim sé þessi listhugsun hugleikin. Börn skapa hinsvegar margt sætt og flott og kanski miklu betra en það sem kallað er list, en það er nú önnur saga. Það er leiðinlegt fyrir suma að þurfa að skilja þetta. Náttúran er heldur ekki list, eins flott og hún getur nú verið. Hinsvegar getur málverk af henni eða ljósmynd verið list þó það hljómi ef til vill undarlega.
En að því ber að hyggja að jafnvel þó listaspíra skapi eitthvað og sé ákaflega meðvituð um listferlið allt, er alls ekki öruggt að útkoman verði list. Það er nefnilega langt í frá algildur sannleikur að það sem lærður listamaður skapar og sýnir sé list, einsog sumir listhrokagikkir halda blákalt fram. Með sömu röksemdafærslu mætti segja að allt sem lærður múrari skapaði og gerði sýnilegt væri múrverk.

Thursday, October 26, 2006

Annar Listapistill


Dagur heitinn Sigurðarson sagði eitthvað á þá leið, að maður ætti að fara vel með gyðjunnar gáfur og rembast ekki við það sem kæmi af sjálfu sér. Mér hefur alltaf fundist að ég skildi þetta og væri því sammála þótt ég viti jafn vel og Dagur vissi að góð list verður ekki endilega til af sjálfu sér. Listvinnsla krefst að sjálfsögðu ástundunar. Listamenn verða auðvitað betri með æfingunnni, rétt eins og smiðir og vegavinnumenn. En alltof oft heyrir maður alls kyns listaspírur á öllum aldri gráta það með ekka og soghljóðum hve listsköpun sé fórnfús erfið og mikil glíma. Menn hreinlega stara sig hálfblinda á auð léreft, fá ægilegar ritstíflur og geta bara ekki skapað þó þörfin sé knýjandi.Ó mig aumann. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að hugarvíl við listsköpun skili sér í leiðinlegri eða bara lélegri list og finnst satt að segja að listsköpun hljóti í grunninn að vera skemmtileg og beinlínis forréttindi listamanna. Auðvitað er þetta misskemmtilegt og stundum erfitt, en það er heldur ekki alltaf auðvelt að hugsa.
Hví skildi einhver bíða spenntur eftir verki listamanns, sem verður tíðrætt um andlega raun sköpunarinnar ?

Wednesday, October 25, 2006

Fyrsti Listapistill


List er lýðnum ef til vill hugleikin. En langtum hugleiknari er listin þó listamönnum og meðleikendum.
Listin er nefnilega leikur.
Ég hef í hyggju hér á þessum vettvangi mínum að stökkva útí enn eina djúpa laugina og skrifa um það bil dúsín af stuttum pistlum um list og listamenn einsog fyrirbærið blasir við mér.
Í upphafi skal tekið fram að eflaust mun ég ekki, frekar en þúsundir rithöfunda sem hafa skrifað enn fleiri doðranta um efnið, getað varpað miklu ljósi á HVAÐ ER LIST.
En pistlar þessir munu skrifaðir af svipuðum hvötum og doðrantar fræðinganna, sem sé að athuga hvort ég verð nokkru nærri um þetta skrýtna fyrirbæri LIST með því að pæla ögn í því.