Sunday, December 10, 2006

Fimmtándi Listapistill

List já, æ hvað er það nú eiginlega .- “vitið þér hvað það er mér er það hulið “ (megas)-

Ég held að mér beri skylda til þess hér og nú að upplýsa að það er einfaldlega ekki til nein mælistika sem mælir listamark hluta.
En ýmis viðmið verða að vera grunnþættir í listkjörþokka. Til dæmis verður skapari verksins að hafa haft einbeittan vilja til að skapa list, hugmynd sem er einhvers virði ( en það er nú oft með hugmyndir einsog þokuna hvorutveggja vill gufa upp ) og handverkið verður líka að styðja hugmyndina. – Myndlistarmenn fá oft alvöru handverksmenn til að vinna fyrir sig svo handverkið verði við hæfi, en þá þarf hugmyndin líka að vera skotheld.
Það er þó ekki nóg að segja að list sé að gera hlutina vel ( sbr yrðingu Þorsteins Gylfasonar “menning er að gera hlutina vel” ), það eru mörg dæmi um stórkostleg listaverk sem eru afar illa gerð.
En listaverk þarf sinn tíma til að snerta þannig sálarlíf margra að listljósið leyni sér ekki. – Með áherslu minni á þátt tímans í því að gera verk að list, á ég ef til vill við að það taki tíma fyrir lærða og leika að sammælast um meðvitund fyrir listaverki. ( Stundum segja allir við fyrstu sýn : “þetta er snilld” og halda því áfram allt til ragnarraka, en það afsannar ekki kenninguna ) -.
Og það er hroki að halda sig hafa svo góðan smekk, að viðkomandi búi yfir hinum eina sanna skilningi á list. Þeir sem halda sig hafa þann skilning skortir víðsýni.

List er samt mannskepnunni nauðsynleg og allir hafa skoðun á og vilja vera skapandi eða túlkandi listamenn. Ég ætla ekki að eyða plássi í að tala um muninn á skapandi og túlkandi list. Veltum bara fyrir okkur : Er skapandi listamaður frjáls ? Er túlkandi listamaður heftur af nótunum, textanum eða öðru því sem hann túlkar ?

Og sumir vilja vera gagnrýnendur, en það er nú erfiðast ef vel á að vera, gagnrýnandi þarf að vita, þora og geta. Sumir gagnrýnendur eru bara grafarar sem afskrifa án íhygli, aðrir halda að þeir séu vídeóvélar og lýsa bara því sem þeir sáu eða heyrðu, en gagnrýnendur sem geta bent á, skilgreint og leiðbeint hafa ef til vill dágóða innsýn í list.

En ætli listin sé ekki bara einsog að hjóla á reiðhjóli. Með smá áreynslu kemst maður milli staða, en fyrst og fremst er þetta spurning um að læra að halda jafnvægi.