Wednesday, November 29, 2006

Tíundi Listapistill

Tilhvers skapa listamenn list ?
Þegar stórt er spurt verður fátt um greindarleg svör. Reyndar er oft pínlegt að heyra listamenn úrskýra “ tilhversið “ sem þeir vinna útfrá. Enda kanski ekki alltaf auðvelt að koma orðum að því, sem er bara óljós hugmynd eða agnarsmár leiðarhnoði. En þetta með "tilhversið “ er samt aðalatriðið í listsköpun, manni finnst alla vega það vera þunnur þrettándi viti listamaður ekki til hvers hann er að skapa.

En sumir vilja meina að í upphafi hafi listin snúist um og verið tengd fegurðinni órjúfanlegum böndum og þá hefur nú verið þægilegt að gefa upp “ tilhversið “.
List hefur reyndar frá öndverðu verið bæði falleg sem ljót og algjör misskilningur að samsama list fegurðinni, en þetta er lífsseig hugsanavilla ( ef til vill þýðingarvilla einsog meyfæðingin, sem er þó önnur saga ). Og því tala menn í alvöru um að listin hafi verið frelsuð undan viðjum fegurðarinar svo seint sem um aldamótin 1800 og þar hafi heimspekingurinn Immanúel Kant komið við sögu. Og þá fór nú í verra, eftir það hafi listamenn þurft að úskýra hversvegna þeir væru að gera eitthvað sem ekki var fagurt. Og um það bil hundrað árum síðar muldraði einhver þreyttur listamaður í skeggið, að list þyrfti ekki að útskýra listin væri ekki til neins, hún væri bara fyrir listina. Og þetta gripu listamenn/listrýnendur á lofti og hafa hampað síðan af mismiklum þrótti þó. Þetta er reyndar nokkuð traust haldreipi og með það fastbundið þarf ekki að útskýra meir. Listin er fyrir listina skilurðu ? Þannig verður listahugtakið; að listaverk sé einungis það sem hefur list að markmiði annað markmið skapi ekki list. Því er verk sem hefur það að markmiði að fólk grípi andann á lofti ekki list nema loftandagrip verði flokkað sem list. Þetta er nú ekki gott nema rétt þann litla spöl sem það nær.
Listin fyrir listina hljómar í mínum huga sem ósköp klént yfirklór. Því listin getur aldrei staðið ein og í raun og veru verður list ekki endanlega til fyrren einhver nýtur hennar. Hvernig getur hún þá verið fyrir sjálfa sig eingöngu ?
Nei listin er fyrir listina, listafólk, listaáhugafólk, listalíf, listasnobb, listahús, listagagnrýnendur, listaandstæðinga, listavini og allt sem með list tjáir að nefna. Listin er spegill sálar og samfélags og listin er í eðli sínu úthverf, þó “ tilhversið ” búi innra með hverjum listamanni.

Á það ber þó að líta að vitaskuld þarf að styrkja innviði listarinnar með listalími. En “ tilhversið “ í listinni má ekki og getur ekki verið að reisa innmúraða fílabeinsturna. Það er grafhýsi.

Tuesday, November 28, 2006

Níundi Listapistill


Hvað í ósköpununum skyldi fá allan þennan aragrúa fólks, sem raun ber vitni, til að reyna sig í listinni ? Hvað eru milljónirnar að vilja í listaskóla til að nema og skapa list og hvað fær ennþá stærri skara til að dubla við listina óskólalært og óumbeðið ? Hvers vegna er blessað fólkið að þessu ? Ekki getur það verið peningavonin. Það eru giska fáir sem lifa sældarlífi af listinni. Og algengt er með endemum að heyra listamenn, sem reyna að lifa af þessu, básúna hversu erfitt það sé, fórnfúst og einmanalegt starf vera á kafi í listsköpun, en geta ekki annað. Slíkt tal hefur samt aldrei fælt aðra frá því að reyna.
En við getum gefið okkur það að sköpunarþrá sé fólki í blóð borin. Til dæmis er matargerð nauðsynleg, svo og handverk hverskonar, barneignir og uppeldi, allt sköpun.
Listamenn fara oft upp fyrir þrána og tala um sköpunarþörfina, en það er nú held ég bara til að sýnast, því listamennsku fylgir sýniþörf. Mýtan um skúffuskáldin og málarana sem mála fyrir geymsluna er lygi, allir sem skapa þrá að sýna afraksturinn þó kanski flestir þori ekki og/eða hafa vit á að gera það ekki.
Með ástundun og ástríðu verður sköpunarþráin að þörf. Ekkert merkilegt við það.

Er það ef til vill æxlunarþrá hjá öllum þessum milljónum manna sem einhverntíma á lífsleiðinni reyna við listagyðjuna ? Eða þykir það töff að standa á móti straumnum með listamennsku að leiðarljósi, meðan aðrir standa hvæsandi “ er það nú list “ ? Hinir síðarnefndu gera sér þá væntanlega ekki grein fyrir því að hafa fyrirframskoðanir á og eru beinlýnis að hugsa um list. Þegar öllu er á botninn hvolft virðast nefnilega allir vera að einhverju marki með list og listamennsku á heilanum og fólk virðist hafa jafnmikinn áhuga á að viðra skoðanir sínar á list og listamenn að viðra verk sín.
Listin er bara svona afskaplega spennandi, hjákátleg, alltumlykjandi, nauðsynleg/ónauðsynleg, ógnvekjandi, hjartastyrkjandi og bráðdrepandi, að þetta virðist nánast vera ein af grunnþörfum mannskepnunnar að fá sína fimmtán mínútna frægð sem listamaður/listagagnrýnandi.
Allt saman kanski komið til vegna þess að snobbaðir handverksmenn endurreisnar, sem vildu bera kjarnmeiri titil, byrjuðu ómeðvitað að ýta listinni uppfyrir guð í goggunarröðinni.

Sunday, November 19, 2006

Áttundi Listapistill

Þetta er persónulegur pistill.

Þegar menn velta upp hugtökum einsog list og listamennsku finnst mér þurfa að segja með hvaða augum höfundur lítur á eigið silfur, það gera fæstir enda meintir fræðingar. Ég reyni.
Skömmu eftir stofnun Gilfélagsins, þegar landnám var langt komið í mjólkursamlaginu og víðar í verksmiðjum KEA í Grófargili, var smalað í útvarpsþátt og við sem máttum mæla fyrir listrænni þögn, spurð um eitt og annað og látin syngja og spila eftir getu. Útvarpskona spurði mig hvers konar listamaður ég væri. Ég svaraði að ég liti ekki á mig sem listamann heldur handverksmann. Konan nærri kokgleypti hljóðnemann og ætlaði aldrei að finna aðra spurningu. Það var víst óheyrt að einhver afneitaði því tækifæri að básúna í útvarpinu hversu mikill listamaður hann væri. Kunningi minn sem er stofnandi Myndlistaskólans og annar guðfaðir Listagilsins kallaði mig lengi eftir handverksmanninn.

Síðan hafa aðrir hanar galað oftar en tvisvar en ég verið í sömu afneitun.

Ég neita því samt ekki að hafa daðrað oft og stíft við listagyðjuna og stundum fundist ég hafa hana undir, en sjaldan vaknað með hana við síðuna á mér og þótt ég reyni stundum við hana gleymi ég henni líka alveg þess á milli, svo hún getur ekki talist mín, né ég hennar.
Ég dunda mér við að búa ýmislegt til og þegar vel stendur á gef ég frá mér hljóð sem minna á söng og stundum finnst mér ég jafnvel standa mig svo vel að minn innri maður segir : “sjáðu til þetta gastu”, en það er engin ávísun á né vænting um alltaf. Ég hef jafngaman að því að smíða bókahillu og eitthvað annað sem puntað getur veggi og lít á það sem samskonar verk, sem ég reyni að vinna af alúð, jafnvel ástúð og þannig er og verður það.

Mér þótti vænt um að lesa fyrir stuttu viðtal við leikara sem nánast alltaf fær lof fyrir sína vinnu. Hann sagðist nálgast hlutina sem handverksmaður. Hann kynni ýmislegt, bætti við innsæi og vinnusemi og reyndi þannig að skila sínu verki vel. Ef öðrum þætti það takast væri það vel, en aldrei væri róið á lofið.

Sjöundi Listapistill


Það er best að viðurkenna það strax. Það getur assskotakornið engin listaspíra tapað á því að stunda nám í listaskólum. Samt kenna listaskólar ekki eiginlega listamennsku, en þeir geta hjálpað fólki að verða listamenn. Í skólum er kennd tækni og leiðir og það sem mest er vert ef vel tekst til, þeir víkka sjóndeildarhring nemendanna. Þess vegna er listnám ábyggilega hollt veganesti útí lífið, þótt flestir sem ganga í gegnum jafnvel langt og strangt nám, verði aldrei listamenn.
Það er með listamennskuna einsog flest spennandi að fleiri vilja fara á´ana en komast í´ana. Listaneistinn sjálfur er meðfæddur ( sjá um gyðjunnar gáfur í öðrum pistli ). Þessa gáfu er síðan hægt að styrkja og fága með námi og iðjusemi. Allir raunverulegir listamenn eru menntaðir á sinn hátt hvort sem þeir hafa gengið í listaskóla eður ei.
Málið er síðan að án ástundunar verður eðlilega engin listsköpun. Gyðjunnar gáfur svo nauðsynlegar sem þær eru skapa einar og sér ekki list. Innblásturinn kemur listamanni aldrei alla leið, en verður samt að vera til staðar, því afköst ein og sér eru heldur ekki list.
Listaleikurinn er sambland af fundvísi og púli og hlýtur að vera bæði skemmtilegur og spennandi, sem sést best á því hve ótal margir vilja leika.

Við íslendingar erum voða mikið fyrir að sýnast. Þess vegna er algengt að fólk skreyti sig með hégómleikans fjöðrum. Þeir sem hafa gengið í listaskóla kalla sig listamenn jafnvel eftir 20 ár, án listaástundunar.
Allir segjumst við hafa kveðið Lilju.
Dönsk vinkona mín kom eitt sinn til Íslands með kærasta sínum og hann kynnti hana fyrir vinum sínum. Allir gengust við listamennskutitli, voru skáld, leikarar og myndlistamenn og þar fram eftir götunum ( afrekin á listasviðinu voru þó ekki alltaf í samræmi við væntingar ). En sú danska spurði loks í forundran hvort það væri ekkert venjulegt fólk á Íslandi.
Á Stór-Akureyrarsvæðinu eru ansi margir sem vilja bera titilinn, en ég fullyrði að listamenn séu þó færri hér en fingurnir á Sigga 7up.

Tuesday, November 07, 2006

Sjötti Listapistill

Þegar kemur að því að meta listrænt gildi verka eru margir tilkallaðir en fáir útvaldir einsog gengur. Samt er það bara tíminn sem getur skorið úr um slíkt. Tíminn er nefnilega enginn staðbundinn hæstiréttur og yfir flokkadrætti hafinn.
En það tekur tímann sinn að þekkja listina. Þannig lenda listamenn, sem fyrir til dæmis hundrað árum var hampað sem miklum snillingum, í því að þekkjast nú lítt og verk þeirra fá varla línu í listasögunni. En þá ber svo við að tíminn hefur ef til vill hafið upp verk þess sem á sínum tíma var óþekktur og verk hans nú ekki aðeins kafli í listasögunni, heldur endalausir hillumetrar.
En tíminn stoppar þó ekki staðbundinn nútímann í að dæma um hvað er góð list og vond eða engin. Skárra væri það nú, en meinið við listgagnrýni líðandi stundar, að hún er algjörlega háð smekk og tísku.
Smekkur einstaklinga er misjafn að vonum, en þeir sem gefa tóninn um listrænan smekk ( t.d. gagnrýnendur ) gefa sér um leið að hafa betri smekk en flestir. Kanski í krafti menntunar og reynslu, en eru samt sjálfskipaðir álitsgjafar og geta því varla gert tilkall til að hafa hinn endanlega smekk. En stundum stinga svona fírar nösunum uppí regnið og segjast samt vita betur.
Samtímalist er alltaf háð tískustefnum. Bylgjurnar ber á strendur og þær sogast út aftur með jöfnu millibili. Það er svosem allt í lagi fyrir listamenn að lenda í tískunni, meinið að hún er alltaf ákveðin fyrirfram. Það er nánast gefin út yfirlýsing: "Stefnan er hólar" og allt að því flestir álpast uppá hól. Sumir ná árangri á sínum hól en hoppa svo á fjall sem verður línan næst og svo koll af kolli meðan sumir eru kanski fastir í dalnum sem tröllreið listalífinu þar áður og forpokast þar.
Trúa mín er sú að þeir listamenn, sem halda sig einsog iðinn skóari við sinn leist og þróa sjálfir sína stefnu og stíl nái þegar tíminn telur til tekna mestum árangri.

Thursday, November 02, 2006

Fimmti Listapistill

En hvað skyldi nú hafa breyst þarna á endurreisnartímum, þegar handverksmenn sumir fóru að kallast listamenn ? Það var nú harla fátt. Sumir sagnfræðigárungar vilja reyndar meina að handverksmeistarar hafi viljað verða aðalsmenn og listamaður væri allavega flottari titil en handverksmaður (eimir eftir af þessari hugsun enn ? ). Látum það liggja á milli hluta að sinni.
Því áfram héldu menn að læra iðnina/listina hjá þar til bærum meisturum. Og sérstaklega í myndlist breyttist lítið í meistara/lærlingakerfinu fram undir tuttugustu öldina. Lærlingar máluðu bakgrunna og voru í grófvinnunni við stytturnar, en meistarinn ( listamaðurinn ) rak að síðustu listrænan rembingskoss á verkið.
En það sem breyttist var þó það sem til lengri tíma litið skipti máli.
Hugarfarið.
Þegar tíminn hafði talað til kynslóð eftir kynslóð fór hugmyndin um list að gera sig í kolli nógu margra. Samt eru mörkin milli listar og handverks enn óskýr og því miður bæta sumir listamenn ekki úr skák með því að sveipa listina merkilegheitablæju, sem gerir aðeins innvígðum kleyft að líta innfyrir.
Helsti sigur listarinnar er þó sjálfstæði hugmyndanna.
Þegar listamenn fara að gera verk sín óháð fyrirfram pöntunum og forskrift öðlast listin eigið líf.
List þarf sem sé ekki annað notagildi en sjálfa sig.
Ef þetta hljómar einsog vinstra og hægra heilahveli sé lamið saman, þá er það hið besta mál, en ég lýk þessum pisli með útskýringardæmi:
Þegar vegagerðarmaður leggur veg liggur hann milli staða, það er tilgangurinn.
Þegar listamaður leggur veg liggur hann helst ekki neitt - nema áfram.