Er þetta list ? Það var þá listin. Svona höfum við oft heyrt krauma í sýningargestum á listviðburðum, jafnvel hugsað svona sjálf.
Og svona hefur þetta verið og mun verða.
En það er erfitt að ræða um list nema að gera sér grein fyrir því að sköpunaráráttan hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda, en það er aðeins tíminn sem er mælikvarði á hvað er list.
En hvernig getur tíminn sem gerir vart annað en að líða verið mælikvarði ?
Í listasögunni er oft miðað við, að meðvituð listsköpun slái í gegn með Endurreisninni á Ítalíu á 14. öld, en hún var þegar að er gáð endurreisn á viðhorfum til lista sem ku hafa ríkt á gullöld Grikkja og Rómverja. Á milli hinnar gömlu reisnar og endurreisnar voru viðhorfin til sköpunar aðallega trúarleg, menn reistu sínar styttur og hallir, skrifuðu bókrullur, máluðu á veggi og sungu og slóu tóna og takt sem handverksmenn í garði guðsins. Og á gullöldinni var þessi handverkshugun svo sem einnig ríkjandi. Það voru handverksmenn sem tóku niður pantanir að verkum :
Vantar texta fyrir tuttugu manna kór með grímur ? Við bætum því á bókrulluna. Og bókrullugerðarmenn, oftast nafnlausir, ydduðu sinn stíl, gerðu blek og bjuggu til sögu um vandamál guðanna í mannheimum. Þarftu 20 feta háa marmarastyttu af Neptúnusi ? Tilbúin eftir tuttugu ár. Og svo fór styttusmiðurinn af stað með sinn hamar og meitil einsog hann hafði lært af föður sínum, frænda eða öðrum styttumeistara.
En svo var það sennilega þarna á Ítalíu endurreisnarinnar að hugsuðir fóru að nefna iðn þessara handsverksmanna LIST. Og tíminn, sem staldraði ekkert lengur við Endurreisnina en annað, hafði síðan í farteski sínu þessa hugsun: Að allir þessir styttusmiðir, bókrullubéusar, málningarmakarar og hljómsláttarmenn og hvað þetta heitir nú allt væru Listamenn og iðn þeirra Listsköpun.