Þegar kemur að því að meta listrænt gildi verka eru margir tilkallaðir en fáir útvaldir einsog gengur. Samt er það bara tíminn sem getur skorið úr um slíkt. Tíminn er nefnilega enginn staðbundinn hæstiréttur og yfir flokkadrætti hafinn.
En það tekur tímann sinn að þekkja listina. Þannig lenda listamenn, sem fyrir til dæmis hundrað árum var hampað sem miklum snillingum, í því að þekkjast nú lítt og verk þeirra fá varla línu í listasögunni. En þá ber svo við að tíminn hefur ef til vill hafið upp verk þess sem á sínum tíma var óþekktur og verk hans nú ekki aðeins kafli í listasögunni, heldur endalausir hillumetrar.
En tíminn stoppar þó ekki staðbundinn nútímann í að dæma um hvað er góð list og vond eða engin. Skárra væri það nú, en meinið við listgagnrýni líðandi stundar, að hún er algjörlega háð smekk og tísku.
Smekkur einstaklinga er misjafn að vonum, en þeir sem gefa tóninn um listrænan smekk ( t.d. gagnrýnendur ) gefa sér um leið að hafa betri smekk en flestir. Kanski í krafti menntunar og reynslu, en eru samt sjálfskipaðir álitsgjafar og geta því varla gert tilkall til að hafa hinn endanlega smekk. En stundum stinga svona fírar nösunum uppí regnið og segjast samt vita betur.
Samtímalist er alltaf háð tískustefnum. Bylgjurnar ber á strendur og þær sogast út aftur með jöfnu millibili. Það er svosem allt í lagi fyrir listamenn að lenda í tískunni, meinið að hún er alltaf ákveðin fyrirfram. Það er nánast gefin út yfirlýsing: "Stefnan er hólar" og allt að því flestir álpast uppá hól. Sumir ná árangri á sínum hól en hoppa svo á fjall sem verður línan næst og svo koll af kolli meðan sumir eru kanski fastir í dalnum sem tröllreið listalífinu þar áður og forpokast þar.
Trúa mín er sú að þeir listamenn, sem halda sig einsog iðinn skóari við sinn leist og þróa sjálfir sína stefnu og stíl nái þegar tíminn telur til tekna mestum árangri.