Tuesday, November 28, 2006

Níundi Listapistill


Hvað í ósköpununum skyldi fá allan þennan aragrúa fólks, sem raun ber vitni, til að reyna sig í listinni ? Hvað eru milljónirnar að vilja í listaskóla til að nema og skapa list og hvað fær ennþá stærri skara til að dubla við listina óskólalært og óumbeðið ? Hvers vegna er blessað fólkið að þessu ? Ekki getur það verið peningavonin. Það eru giska fáir sem lifa sældarlífi af listinni. Og algengt er með endemum að heyra listamenn, sem reyna að lifa af þessu, básúna hversu erfitt það sé, fórnfúst og einmanalegt starf vera á kafi í listsköpun, en geta ekki annað. Slíkt tal hefur samt aldrei fælt aðra frá því að reyna.
En við getum gefið okkur það að sköpunarþrá sé fólki í blóð borin. Til dæmis er matargerð nauðsynleg, svo og handverk hverskonar, barneignir og uppeldi, allt sköpun.
Listamenn fara oft upp fyrir þrána og tala um sköpunarþörfina, en það er nú held ég bara til að sýnast, því listamennsku fylgir sýniþörf. Mýtan um skúffuskáldin og málarana sem mála fyrir geymsluna er lygi, allir sem skapa þrá að sýna afraksturinn þó kanski flestir þori ekki og/eða hafa vit á að gera það ekki.
Með ástundun og ástríðu verður sköpunarþráin að þörf. Ekkert merkilegt við það.

Er það ef til vill æxlunarþrá hjá öllum þessum milljónum manna sem einhverntíma á lífsleiðinni reyna við listagyðjuna ? Eða þykir það töff að standa á móti straumnum með listamennsku að leiðarljósi, meðan aðrir standa hvæsandi “ er það nú list “ ? Hinir síðarnefndu gera sér þá væntanlega ekki grein fyrir því að hafa fyrirframskoðanir á og eru beinlýnis að hugsa um list. Þegar öllu er á botninn hvolft virðast nefnilega allir vera að einhverju marki með list og listamennsku á heilanum og fólk virðist hafa jafnmikinn áhuga á að viðra skoðanir sínar á list og listamenn að viðra verk sín.
Listin er bara svona afskaplega spennandi, hjákátleg, alltumlykjandi, nauðsynleg/ónauðsynleg, ógnvekjandi, hjartastyrkjandi og bráðdrepandi, að þetta virðist nánast vera ein af grunnþörfum mannskepnunnar að fá sína fimmtán mínútna frægð sem listamaður/listagagnrýnandi.
Allt saman kanski komið til vegna þess að snobbaðir handverksmenn endurreisnar, sem vildu bera kjarnmeiri titil, byrjuðu ómeðvitað að ýta listinni uppfyrir guð í goggunarröðinni.