Sunday, November 19, 2006
Sjöundi Listapistill
Það er best að viðurkenna það strax. Það getur assskotakornið engin listaspíra tapað á því að stunda nám í listaskólum. Samt kenna listaskólar ekki eiginlega listamennsku, en þeir geta hjálpað fólki að verða listamenn. Í skólum er kennd tækni og leiðir og það sem mest er vert ef vel tekst til, þeir víkka sjóndeildarhring nemendanna. Þess vegna er listnám ábyggilega hollt veganesti útí lífið, þótt flestir sem ganga í gegnum jafnvel langt og strangt nám, verði aldrei listamenn.
Það er með listamennskuna einsog flest spennandi að fleiri vilja fara á´ana en komast í´ana. Listaneistinn sjálfur er meðfæddur ( sjá um gyðjunnar gáfur í öðrum pistli ). Þessa gáfu er síðan hægt að styrkja og fága með námi og iðjusemi. Allir raunverulegir listamenn eru menntaðir á sinn hátt hvort sem þeir hafa gengið í listaskóla eður ei.
Málið er síðan að án ástundunar verður eðlilega engin listsköpun. Gyðjunnar gáfur svo nauðsynlegar sem þær eru skapa einar og sér ekki list. Innblásturinn kemur listamanni aldrei alla leið, en verður samt að vera til staðar, því afköst ein og sér eru heldur ekki list.
Listaleikurinn er sambland af fundvísi og púli og hlýtur að vera bæði skemmtilegur og spennandi, sem sést best á því hve ótal margir vilja leika.
Við íslendingar erum voða mikið fyrir að sýnast. Þess vegna er algengt að fólk skreyti sig með hégómleikans fjöðrum. Þeir sem hafa gengið í listaskóla kalla sig listamenn jafnvel eftir 20 ár, án listaástundunar.
Allir segjumst við hafa kveðið Lilju.
Dönsk vinkona mín kom eitt sinn til Íslands með kærasta sínum og hann kynnti hana fyrir vinum sínum. Allir gengust við listamennskutitli, voru skáld, leikarar og myndlistamenn og þar fram eftir götunum ( afrekin á listasviðinu voru þó ekki alltaf í samræmi við væntingar ). En sú danska spurði loks í forundran hvort það væri ekkert venjulegt fólk á Íslandi.
Á Stór-Akureyrarsvæðinu eru ansi margir sem vilja bera titilinn, en ég fullyrði að listamenn séu þó færri hér en fingurnir á Sigga 7up.