Thursday, November 02, 2006

Fimmti Listapistill

En hvað skyldi nú hafa breyst þarna á endurreisnartímum, þegar handverksmenn sumir fóru að kallast listamenn ? Það var nú harla fátt. Sumir sagnfræðigárungar vilja reyndar meina að handverksmeistarar hafi viljað verða aðalsmenn og listamaður væri allavega flottari titil en handverksmaður (eimir eftir af þessari hugsun enn ? ). Látum það liggja á milli hluta að sinni.
Því áfram héldu menn að læra iðnina/listina hjá þar til bærum meisturum. Og sérstaklega í myndlist breyttist lítið í meistara/lærlingakerfinu fram undir tuttugustu öldina. Lærlingar máluðu bakgrunna og voru í grófvinnunni við stytturnar, en meistarinn ( listamaðurinn ) rak að síðustu listrænan rembingskoss á verkið.
En það sem breyttist var þó það sem til lengri tíma litið skipti máli.
Hugarfarið.
Þegar tíminn hafði talað til kynslóð eftir kynslóð fór hugmyndin um list að gera sig í kolli nógu margra. Samt eru mörkin milli listar og handverks enn óskýr og því miður bæta sumir listamenn ekki úr skák með því að sveipa listina merkilegheitablæju, sem gerir aðeins innvígðum kleyft að líta innfyrir.
Helsti sigur listarinnar er þó sjálfstæði hugmyndanna.
Þegar listamenn fara að gera verk sín óháð fyrirfram pöntunum og forskrift öðlast listin eigið líf.
List þarf sem sé ekki annað notagildi en sjálfa sig.
Ef þetta hljómar einsog vinstra og hægra heilahveli sé lamið saman, þá er það hið besta mál, en ég lýk þessum pisli með útskýringardæmi:
Þegar vegagerðarmaður leggur veg liggur hann milli staða, það er tilgangurinn.
Þegar listamaður leggur veg liggur hann helst ekki neitt - nema áfram.