Sunday, November 19, 2006

Áttundi Listapistill

Þetta er persónulegur pistill.

Þegar menn velta upp hugtökum einsog list og listamennsku finnst mér þurfa að segja með hvaða augum höfundur lítur á eigið silfur, það gera fæstir enda meintir fræðingar. Ég reyni.
Skömmu eftir stofnun Gilfélagsins, þegar landnám var langt komið í mjólkursamlaginu og víðar í verksmiðjum KEA í Grófargili, var smalað í útvarpsþátt og við sem máttum mæla fyrir listrænni þögn, spurð um eitt og annað og látin syngja og spila eftir getu. Útvarpskona spurði mig hvers konar listamaður ég væri. Ég svaraði að ég liti ekki á mig sem listamann heldur handverksmann. Konan nærri kokgleypti hljóðnemann og ætlaði aldrei að finna aðra spurningu. Það var víst óheyrt að einhver afneitaði því tækifæri að básúna í útvarpinu hversu mikill listamaður hann væri. Kunningi minn sem er stofnandi Myndlistaskólans og annar guðfaðir Listagilsins kallaði mig lengi eftir handverksmanninn.

Síðan hafa aðrir hanar galað oftar en tvisvar en ég verið í sömu afneitun.

Ég neita því samt ekki að hafa daðrað oft og stíft við listagyðjuna og stundum fundist ég hafa hana undir, en sjaldan vaknað með hana við síðuna á mér og þótt ég reyni stundum við hana gleymi ég henni líka alveg þess á milli, svo hún getur ekki talist mín, né ég hennar.
Ég dunda mér við að búa ýmislegt til og þegar vel stendur á gef ég frá mér hljóð sem minna á söng og stundum finnst mér ég jafnvel standa mig svo vel að minn innri maður segir : “sjáðu til þetta gastu”, en það er engin ávísun á né vænting um alltaf. Ég hef jafngaman að því að smíða bókahillu og eitthvað annað sem puntað getur veggi og lít á það sem samskonar verk, sem ég reyni að vinna af alúð, jafnvel ástúð og þannig er og verður það.

Mér þótti vænt um að lesa fyrir stuttu viðtal við leikara sem nánast alltaf fær lof fyrir sína vinnu. Hann sagðist nálgast hlutina sem handverksmaður. Hann kynni ýmislegt, bætti við innsæi og vinnusemi og reyndi þannig að skila sínu verki vel. Ef öðrum þætti það takast væri það vel, en aldrei væri róið á lofið.