Wednesday, November 29, 2006

Tíundi Listapistill

Tilhvers skapa listamenn list ?
Þegar stórt er spurt verður fátt um greindarleg svör. Reyndar er oft pínlegt að heyra listamenn úrskýra “ tilhversið “ sem þeir vinna útfrá. Enda kanski ekki alltaf auðvelt að koma orðum að því, sem er bara óljós hugmynd eða agnarsmár leiðarhnoði. En þetta með "tilhversið “ er samt aðalatriðið í listsköpun, manni finnst alla vega það vera þunnur þrettándi viti listamaður ekki til hvers hann er að skapa.

En sumir vilja meina að í upphafi hafi listin snúist um og verið tengd fegurðinni órjúfanlegum böndum og þá hefur nú verið þægilegt að gefa upp “ tilhversið “.
List hefur reyndar frá öndverðu verið bæði falleg sem ljót og algjör misskilningur að samsama list fegurðinni, en þetta er lífsseig hugsanavilla ( ef til vill þýðingarvilla einsog meyfæðingin, sem er þó önnur saga ). Og því tala menn í alvöru um að listin hafi verið frelsuð undan viðjum fegurðarinar svo seint sem um aldamótin 1800 og þar hafi heimspekingurinn Immanúel Kant komið við sögu. Og þá fór nú í verra, eftir það hafi listamenn þurft að úskýra hversvegna þeir væru að gera eitthvað sem ekki var fagurt. Og um það bil hundrað árum síðar muldraði einhver þreyttur listamaður í skeggið, að list þyrfti ekki að útskýra listin væri ekki til neins, hún væri bara fyrir listina. Og þetta gripu listamenn/listrýnendur á lofti og hafa hampað síðan af mismiklum þrótti þó. Þetta er reyndar nokkuð traust haldreipi og með það fastbundið þarf ekki að útskýra meir. Listin er fyrir listina skilurðu ? Þannig verður listahugtakið; að listaverk sé einungis það sem hefur list að markmiði annað markmið skapi ekki list. Því er verk sem hefur það að markmiði að fólk grípi andann á lofti ekki list nema loftandagrip verði flokkað sem list. Þetta er nú ekki gott nema rétt þann litla spöl sem það nær.
Listin fyrir listina hljómar í mínum huga sem ósköp klént yfirklór. Því listin getur aldrei staðið ein og í raun og veru verður list ekki endanlega til fyrren einhver nýtur hennar. Hvernig getur hún þá verið fyrir sjálfa sig eingöngu ?
Nei listin er fyrir listina, listafólk, listaáhugafólk, listalíf, listasnobb, listahús, listagagnrýnendur, listaandstæðinga, listavini og allt sem með list tjáir að nefna. Listin er spegill sálar og samfélags og listin er í eðli sínu úthverf, þó “ tilhversið ” búi innra með hverjum listamanni.

Á það ber þó að líta að vitaskuld þarf að styrkja innviði listarinnar með listalími. En “ tilhversið “ í listinni má ekki og getur ekki verið að reisa innmúraða fílabeinsturna. Það er grafhýsi.