Tuesday, August 31, 2010

Opnun í Boxi og sal Myndlistarfélagsins

Við opnuðum sýningar á sama stað ( svotil ) og sama tíma laugardaginn 28.8.2010 kl 14, við Guðrún Pálína. Hún með TAKT í Sal Myndlistarfélagsins og ég Þagnarnál í Boxkompunni. Það var Akureyrarvaka, gott veður og fullt af opnunum og lífi í gilinu þó Menningartunnan Hof væri líka að opna, en það var nú fyrir silkihúfurnar með boðsmiðana. Hjá okkur og öðrum í gilinu var það bara VERIÐ VELKOMIN.

Þagnarnál í BOXKompunni

Það fer vel um þagnarnálina í BoxKompunni, þó erfitt sé að taka myndir af henni þarna inni í gleri allt um kring og ef ætti að slá upp balli í Kompunni þeirri  yrði það voða fámennt.

Tilbrigði við þorsk

Fyrir Akureyrarvöku unnum við Steini saman verkið : Fiskisaga ; Tilbrigði við þorsk. Þetta var skemmtilegt, ég blandaði saman fjórðupartsþögninni minni og þorski ( mun nýta þá hugmynd betur síðar ) og með mosagróinni fjöl og hertum þorskhausum frá Steina kom þetta vel út á austurvegg Myndlistaskólans á Akureyri.

Wednesday, August 25, 2010

The making of Þagnarnál

Í sumar hefur stór hluti frítíma míns farið í það ánægjulega verkefni að gera þennan skúlptúr, sem heitir Þagnarnál. Nú á laugardag 28.8.2010 mun ég sýna hann/hana í BOXinu í gilinu lista. Það er útrás mikil úr Populus Tremula kjallaranum uppá fyrstu hæð í Boxið. Hugmyndin á bak við verkið er náttúrlega fjórðapartsþögn einsog flest sem ég geri, en núna læt ég sem svisslendingurinn Alberto Giacometti hafi komist í skissubók mína og teygt þessa búttuðu og sællegu þögn mína upp í tvo og hálfan meter, en hann var mikið fyrir langt og mjótt. Þagnarnálin er þannig langa systir Þagnar-Freyju, sem ég sýndi með Freyjumyndum í fyrrasumar og enn stendur keik fyrir utan Populus Tremula, já og BOXið.

Hér er stiklað á stóru í vinnunni frá skapalóni til blámálaðrar Þagnarnálar. Svona lítur hún út í vinnustofunni :

1

2

3

4

5

6

7

8

9

10

11

13

14

15

Tuesday, August 24, 2010

Súldarbogi

Það var þessi súldarbogi yfir eyrinni akurs í morgun. Sólskin og súld.