Þessi pistill þyrfti ekki að vera lengri.
En eitthvað smálítið ætla ég að fjalla um það mikla bákn bókmenntir. Orðið sjálft á íslenskunni er ekki gagnsætt. Bókmenntir er látið merkja það sama og “ litterature “, sem vísar meira til þess að skrifa. Skrifmenntir væri nær lagi. Ritlist nær þessu nokkuð vel.
En uppruni bókmennta kemur hinsvegar hinu ritaða orði ekki við. Sagnalistin er jafngömul tungumáli. Sögur lifðu í munnmælum ættlið eftir ættlið og ef þær voru góðar lifðu þær jafnvel ættbálka. En sögurnar tóku sífelldum breytingum, því sagnameistarar sniðu vankanta af þeim og þróuðu áfram. Jafnvel eftir að tekið var að festa sögur í kvæði breyttust þær líka í ára-og aldanna rás. En þetta snérist þó um það að segja sögur og segja fréttir, jafnvel færa nýjustu fréttir í kvæði sem voru munntöm.
Sagnirnar lifðu samt áfram í kvæðunum munn fram af munni. En svo fóru þeir sem áttu mikið skinn og blek að láta skrásetja þessar gömlu sögur og ljóð og jafnvel láta eina og eina úr samtímanum fylgja með.
En ritlistin var lengi lengi hin mikla list skrifaranna, þeirra sem kunnu á bókfellið. Það varð þeim keppikefli að hver síða í handriti væri flott. Skrifararnir voru í raun að fást við myndlist. Og bækurnar eftir að þær komu til voru langt fram eftir öldum innbundnar svo með skrauti og gyllingum, að það fór ekki á milli mála að bókagerðarmenn voru að gera eithvað til að gleðja augað. Það eimir enn eftir af þessu, en bókaskreytingar nútímans og kápumyndir sýna einungis sorglega afturför í frágangi bóka.
Allir eru allt í einu að skrifa, en eftir sem áður ákaflega fáir sem skrifa “ Litterature “.