Thursday, October 26, 2006
Annar Listapistill
Dagur heitinn Sigurðarson sagði eitthvað á þá leið, að maður ætti að fara vel með gyðjunnar gáfur og rembast ekki við það sem kæmi af sjálfu sér. Mér hefur alltaf fundist að ég skildi þetta og væri því sammála þótt ég viti jafn vel og Dagur vissi að góð list verður ekki endilega til af sjálfu sér. Listvinnsla krefst að sjálfsögðu ástundunar. Listamenn verða auðvitað betri með æfingunnni, rétt eins og smiðir og vegavinnumenn. En alltof oft heyrir maður alls kyns listaspírur á öllum aldri gráta það með ekka og soghljóðum hve listsköpun sé fórnfús erfið og mikil glíma. Menn hreinlega stara sig hálfblinda á auð léreft, fá ægilegar ritstíflur og geta bara ekki skapað þó þörfin sé knýjandi.Ó mig aumann. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að hugarvíl við listsköpun skili sér í leiðinlegri eða bara lélegri list og finnst satt að segja að listsköpun hljóti í grunninn að vera skemmtileg og beinlínis forréttindi listamanna. Auðvitað er þetta misskemmtilegt og stundum erfitt, en það er heldur ekki alltaf auðvelt að hugsa.
Hví skildi einhver bíða spenntur eftir verki listamanns, sem verður tíðrætt um andlega raun sköpunarinnar ?