Wednesday, December 06, 2006

Tólfti Listapistill


Myndlist er frekust allra listgreina. Enda kanski ekki skrýtið að hún belgi sig, það verður nefnilega ekki þverfótað fyrir myndlist. Öll sýnileg mannanna verk eru einfaldlega á einhvern hátt tengd myndlist.
Myndlist er svo alltumlykjandi, að orðið List táknar í hugum margra Myndlist. Saga Listarinnar fjallar bara um myndlist. Við tölum um bókmenntir og listir, en segjumst samt ekki vera að afneita bókmenntum sem listgrein. Á “móðurtungunni” ensku er Art ( þýtt list ) einungis notað um myndlist, en The Arts eru listir almennt. Listasafnið á Akureyri er ekki gömul stofnun, en fyrir myndlist eingöngu, heitir þó ekki Myndlistasafn. Safnið hefur haft tvo forstöðumenn og það er gaman að hugsa til þess að stór hluti af jómfrúaropnunarræðum þeirra var samhljóða, sem sé undirstrikunin á því að myndlistin væri allsstaðar. Við göngum í myndlist, ökum í myndlist, búum í myndlist, jafnvel minnstu smáatriði lífs okkar væru háð myndlist, klipping og förðun, gleraugu, klukkur, hnífapör og nærbuxur.
Myndlist og tíska eru í eilífum fullnægingarlitlum samförum. Það er heimtað nýtt, nýtt, nýtt, nýtt, nýtt – fjandinn hafi það þótt það nýja sé gamalt – og það er heimtað meira. En svona verður þetta að vera og einstaka sinnum er það nýja spennandi, jafnvel fyrir gamla íhaldssama jálka.

Myndlist er vissulega rígmontin, en það er eðli þeirra sem eru uppá hól að hreykja sér. Og fyrir myndlistina er öll veröldin rými. ( Rými er reyndar hugtak sem myndlistarmenn sérstaklega hafa misnotað svo mjög að . . . . “afsakið meðan að ég æli” .)
En reyndar getum við ekki neitað því, að alheimurinn er ansi verkleg innsetning.