Tuesday, October 31, 2006

Fjórði Listapistill

Er þetta list ? Það var þá listin. Svona höfum við oft heyrt krauma í sýningargestum á listviðburðum, jafnvel hugsað svona sjálf.
Og svona hefur þetta verið og mun verða.
En það er erfitt að ræða um list nema að gera sér grein fyrir því að sköpunaráráttan hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda, en það er aðeins tíminn sem er mælikvarði á hvað er list.
En hvernig getur tíminn sem gerir vart annað en að líða verið mælikvarði ?
Í listasögunni er oft miðað við, að meðvituð listsköpun slái í gegn með Endurreisninni á Ítalíu á 14. öld, en hún var þegar að er gáð endurreisn á viðhorfum til lista sem ku hafa ríkt á gullöld Grikkja og Rómverja. Á milli hinnar gömlu reisnar og endurreisnar voru viðhorfin til sköpunar aðallega trúarleg, menn reistu sínar styttur og hallir, skrifuðu bókrullur, máluðu á veggi og sungu og slóu tóna og takt sem handverksmenn í garði guðsins. Og á gullöldinni var þessi handverkshugun svo sem einnig ríkjandi. Það voru handverksmenn sem tóku niður pantanir að verkum :
Vantar texta fyrir tuttugu manna kór með grímur ? Við bætum því á bókrulluna. Og bókrullugerðarmenn, oftast nafnlausir, ydduðu sinn stíl, gerðu blek og bjuggu til sögu um vandamál guðanna í mannheimum. Þarftu 20 feta háa marmarastyttu af Neptúnusi ? Tilbúin eftir tuttugu ár. Og svo fór styttusmiðurinn af stað með sinn hamar og meitil einsog hann hafði lært af föður sínum, frænda eða öðrum styttumeistara.
En svo var það sennilega þarna á Ítalíu endurreisnarinnar að hugsuðir fóru að nefna iðn þessara handsverksmanna LIST. Og tíminn, sem staldraði ekkert lengur við Endurreisnina en annað, hafði síðan í farteski sínu þessa hugsun: Að allir þessir styttusmiðir, bókrullubéusar, málningarmakarar og hljómsláttarmenn og hvað þetta heitir nú allt væru Listamenn og iðn þeirra Listsköpun.

Sunday, October 29, 2006

Þriðji Listapistill

Áður en lengra er haldið er best að segja það einsog það er: Listsköpun er meðvitað ferli.
Rétt einsog húsasmiður hefur frá byrjun í hyggju að skapa hús og vegagerðarmaður veg, vinnur listamaður að listsköpun. Í ákaflega grófum dráttum getur því ekkert verið eða orðið list nema höfundurinn hafi meðvitað skapað eða reynt að skapa list. Börn skapa því ekki list með pári sínu nema þeim sé þessi listhugsun hugleikin. Börn skapa hinsvegar margt sætt og flott og kanski miklu betra en það sem kallað er list, en það er nú önnur saga. Það er leiðinlegt fyrir suma að þurfa að skilja þetta. Náttúran er heldur ekki list, eins flott og hún getur nú verið. Hinsvegar getur málverk af henni eða ljósmynd verið list þó það hljómi ef til vill undarlega.
En að því ber að hyggja að jafnvel þó listaspíra skapi eitthvað og sé ákaflega meðvituð um listferlið allt, er alls ekki öruggt að útkoman verði list. Það er nefnilega langt í frá algildur sannleikur að það sem lærður listamaður skapar og sýnir sé list, einsog sumir listhrokagikkir halda blákalt fram. Með sömu röksemdafærslu mætti segja að allt sem lærður múrari skapaði og gerði sýnilegt væri múrverk.

Thursday, October 26, 2006

Annar Listapistill


Dagur heitinn Sigurðarson sagði eitthvað á þá leið, að maður ætti að fara vel með gyðjunnar gáfur og rembast ekki við það sem kæmi af sjálfu sér. Mér hefur alltaf fundist að ég skildi þetta og væri því sammála þótt ég viti jafn vel og Dagur vissi að góð list verður ekki endilega til af sjálfu sér. Listvinnsla krefst að sjálfsögðu ástundunar. Listamenn verða auðvitað betri með æfingunnni, rétt eins og smiðir og vegavinnumenn. En alltof oft heyrir maður alls kyns listaspírur á öllum aldri gráta það með ekka og soghljóðum hve listsköpun sé fórnfús erfið og mikil glíma. Menn hreinlega stara sig hálfblinda á auð léreft, fá ægilegar ritstíflur og geta bara ekki skapað þó þörfin sé knýjandi.Ó mig aumann. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að hugarvíl við listsköpun skili sér í leiðinlegri eða bara lélegri list og finnst satt að segja að listsköpun hljóti í grunninn að vera skemmtileg og beinlínis forréttindi listamanna. Auðvitað er þetta misskemmtilegt og stundum erfitt, en það er heldur ekki alltaf auðvelt að hugsa.
Hví skildi einhver bíða spenntur eftir verki listamanns, sem verður tíðrætt um andlega raun sköpunarinnar ?

Wednesday, October 25, 2006

Fyrsti Listapistill


List er lýðnum ef til vill hugleikin. En langtum hugleiknari er listin þó listamönnum og meðleikendum.
Listin er nefnilega leikur.
Ég hef í hyggju hér á þessum vettvangi mínum að stökkva útí enn eina djúpa laugina og skrifa um það bil dúsín af stuttum pistlum um list og listamenn einsog fyrirbærið blasir við mér.
Í upphafi skal tekið fram að eflaust mun ég ekki, frekar en þúsundir rithöfunda sem hafa skrifað enn fleiri doðranta um efnið, getað varpað miklu ljósi á HVAÐ ER LIST.
En pistlar þessir munu skrifaðir af svipuðum hvötum og doðrantar fræðinganna, sem sé að athuga hvort ég verð nokkru nærri um þetta skrýtna fyrirbæri LIST með því að pæla ögn í því.