Sunday, December 10, 2006

Sextándi Listapistill

List er leikur.
Það er mannskepnunni nauðsynlegt að leika sér. List er ákjósanlegur leikur.
Öll leikum við einhverntíma leikinn á okkar hátt, gleymum því ekki að það er líka þátttaka að þiggja.
Það er ekki ráðlegt að spyrja : “ Er þetta list “, en samt er spurningin eðlileg.
Ég held, að þá aðeins sé von á listaverki, að listamaðurinn leiki listaleikinn af þrótti, einlægni og innlifun.
Listsköpun er vissulega einmanalegt starf, en það er þó allténd eitthvað sem listamaður gerir af áhuga. Það fer enginn í listsköpun vegna þess að það bauðst ekkert betra.
Listsköpun getur verið erfið, en það er hjákátlegt af listamönnum að barma sér yfir því á blaðatorgum.
Hroki hentar ekki list, þeir sem gefa sér það að vera frábærir eru fáráðir.
List getur tendrað ást, heift, grátur og gleði og list getur líka hneykslað, en það er unggæðingslegt í meira lagi að ætla sér að hneyksla með listinni.
Listaverk geta vitaskuld vakið allar kenndir tilfinningalitrófsins vegna þess að listsköpun endurspeglar það allt.
Hitt er svo annað mál hvort nokkru sinni er hægt að skilja list til hlýtar. Skilur einhver tilfinningar ?

Ég lýk þessum pistlum með vitnun í Þorstein Gylfason, sem svaraði spurningunni um það hvort hægt væri að skilja list, nokkurnveginn svona ; að það væri einungis hægt á þann hátt, að maður skildi list eins og maður skilur brandara.
Pælið í þessu.

Pælið í list.