Wednesday, December 06, 2006

Ellefti Listapistill

Ef Darwin hefði hefði verið listrýnir og ritað um uppruna tegundanna út frá þróun listarinnar, myndi rit hans varla hafa valdið hatrömmum deilum, vegna þess að þó list sé skírt dæmi um endalausa þróun tegundanna dettur fjandakornið engum í hug að hún verði ekki til við sköpun, jafnvel svolítið guðlega svo mjög er listin upphafin.

Eitthvað agnarsmátt upphaf er allri listsköpun sögunnar sameiginlegt, einhverskonar pirrandi litningur á sálinni. Við eigum að sjálfsögðu ekki möguleika á að rekja söguna frá upphafi listþróunar þó vissulega sé urmull steingervinga í farveginum, en víst er að einhverntíma í fyrndinni hefur fólkinu ekki fundist nóg að éta eða vera étin, sofa og eðlast. Það þróaði með sér tungumál til að segja frá, einhver fór að humma eða berja einhverju í eitthvað og svo þegar eldurinn var orðinn almenningseign var hægt að maka eitthvað með sóti eða kolaðri spýtu. Listin þarf ekki svo mikið.
En kanski má ekki kalla þessi fyrstu villuráfandi skref listsköpun, því einsog við munum þá varð listhugtakið ekki til fyrr en í Evrópu svo ævintýralega löngu eftir upphafið. Síðan er líka liðinn nokkur tími og fólki hættir til að gleyma að þróunin hafi átt sér upphaf.

Auðvitað á list allt sameiginlegt með annarri þróun tegunda. Útfrá fyrsta listaeinfryminu hafa sprottið margir tegundaflokkar, listgreinar, og sérhver tegund kvíslast í margar ættir, stútfullar af stefnum og flokkum, skapandi og túlkandi. Einsog í þróun dýra og planta hafa listgreinar staðnað á þróunarbrautinni, sumar tegundir dáið út aðrar þróast enn og enginn sér fyrir endann fremur en upphafið.Víst um það að listin á sína krókódíla og risaeðlur. Listin á líka samsvörun við allan þann aragrúa af finkum sem þróast hafa eftir því hvar og hvað þær éta.

Og listin á líka sínar rottur og menn.