Sunday, December 10, 2006

Sextándi Listapistill

List er leikur.
Það er mannskepnunni nauðsynlegt að leika sér. List er ákjósanlegur leikur.
Öll leikum við einhverntíma leikinn á okkar hátt, gleymum því ekki að það er líka þátttaka að þiggja.
Það er ekki ráðlegt að spyrja : “ Er þetta list “, en samt er spurningin eðlileg.
Ég held, að þá aðeins sé von á listaverki, að listamaðurinn leiki listaleikinn af þrótti, einlægni og innlifun.
Listsköpun er vissulega einmanalegt starf, en það er þó allténd eitthvað sem listamaður gerir af áhuga. Það fer enginn í listsköpun vegna þess að það bauðst ekkert betra.
Listsköpun getur verið erfið, en það er hjákátlegt af listamönnum að barma sér yfir því á blaðatorgum.
Hroki hentar ekki list, þeir sem gefa sér það að vera frábærir eru fáráðir.
List getur tendrað ást, heift, grátur og gleði og list getur líka hneykslað, en það er unggæðingslegt í meira lagi að ætla sér að hneyksla með listinni.
Listaverk geta vitaskuld vakið allar kenndir tilfinningalitrófsins vegna þess að listsköpun endurspeglar það allt.
Hitt er svo annað mál hvort nokkru sinni er hægt að skilja list til hlýtar. Skilur einhver tilfinningar ?

Ég lýk þessum pistlum með vitnun í Þorstein Gylfason, sem svaraði spurningunni um það hvort hægt væri að skilja list, nokkurnveginn svona ; að það væri einungis hægt á þann hátt, að maður skildi list eins og maður skilur brandara.
Pælið í þessu.

Pælið í list.

Fimmtándi Listapistill

List já, æ hvað er það nú eiginlega .- “vitið þér hvað það er mér er það hulið “ (megas)-

Ég held að mér beri skylda til þess hér og nú að upplýsa að það er einfaldlega ekki til nein mælistika sem mælir listamark hluta.
En ýmis viðmið verða að vera grunnþættir í listkjörþokka. Til dæmis verður skapari verksins að hafa haft einbeittan vilja til að skapa list, hugmynd sem er einhvers virði ( en það er nú oft með hugmyndir einsog þokuna hvorutveggja vill gufa upp ) og handverkið verður líka að styðja hugmyndina. – Myndlistarmenn fá oft alvöru handverksmenn til að vinna fyrir sig svo handverkið verði við hæfi, en þá þarf hugmyndin líka að vera skotheld.
Það er þó ekki nóg að segja að list sé að gera hlutina vel ( sbr yrðingu Þorsteins Gylfasonar “menning er að gera hlutina vel” ), það eru mörg dæmi um stórkostleg listaverk sem eru afar illa gerð.
En listaverk þarf sinn tíma til að snerta þannig sálarlíf margra að listljósið leyni sér ekki. – Með áherslu minni á þátt tímans í því að gera verk að list, á ég ef til vill við að það taki tíma fyrir lærða og leika að sammælast um meðvitund fyrir listaverki. ( Stundum segja allir við fyrstu sýn : “þetta er snilld” og halda því áfram allt til ragnarraka, en það afsannar ekki kenninguna ) -.
Og það er hroki að halda sig hafa svo góðan smekk, að viðkomandi búi yfir hinum eina sanna skilningi á list. Þeir sem halda sig hafa þann skilning skortir víðsýni.

List er samt mannskepnunni nauðsynleg og allir hafa skoðun á og vilja vera skapandi eða túlkandi listamenn. Ég ætla ekki að eyða plássi í að tala um muninn á skapandi og túlkandi list. Veltum bara fyrir okkur : Er skapandi listamaður frjáls ? Er túlkandi listamaður heftur af nótunum, textanum eða öðru því sem hann túlkar ?

Og sumir vilja vera gagnrýnendur, en það er nú erfiðast ef vel á að vera, gagnrýnandi þarf að vita, þora og geta. Sumir gagnrýnendur eru bara grafarar sem afskrifa án íhygli, aðrir halda að þeir séu vídeóvélar og lýsa bara því sem þeir sáu eða heyrðu, en gagnrýnendur sem geta bent á, skilgreint og leiðbeint hafa ef til vill dágóða innsýn í list.

En ætli listin sé ekki bara einsog að hjóla á reiðhjóli. Með smá áreynslu kemst maður milli staða, en fyrst og fremst er þetta spurning um að læra að halda jafnvægi.

Saturday, December 09, 2006

Fjórtándi Listapistill

Blindur er bóklaus maður. Basta.

Þessi pistill þyrfti ekki að vera lengri.
En eitthvað smálítið ætla ég að fjalla um það mikla bákn bókmenntir. Orðið sjálft á íslenskunni er ekki gagnsætt. Bókmenntir er látið merkja það sama og “ litterature “, sem vísar meira til þess að skrifa. Skrifmenntir væri nær lagi. Ritlist nær þessu nokkuð vel.
En uppruni bókmennta kemur hinsvegar hinu ritaða orði ekki við. Sagnalistin er jafngömul tungumáli. Sögur lifðu í munnmælum ættlið eftir ættlið og ef þær voru góðar lifðu þær jafnvel ættbálka. En sögurnar tóku sífelldum breytingum, því sagnameistarar sniðu vankanta af þeim og þróuðu áfram. Jafnvel eftir að tekið var að festa sögur í kvæði breyttust þær líka í ára-og aldanna rás. En þetta snérist þó um það að segja sögur og segja fréttir, jafnvel færa nýjustu fréttir í kvæði sem voru munntöm.

Upphaf hins ritaða máls breytti ekki miklu fyrir sagnaþulina. Ritmálið var í öndverðu, að því er virðist eingöngu notað af kaupmönnum og fundið upp til að auðvelda þeim vörutalninguna. Enda voru leirtöflur og steinhellur aldrei sagnameistaratól. Það má segja að fyrst með tilkomu almennilegrar skinnasútunar og bleks hafi þeir skrifandi skáldmæltu getað farið að nýta sér ritmálið. Pappírinn galopnaði svo skáldakranann.
Sagnirnar lifðu samt áfram í kvæðunum munn fram af munni. En svo fóru þeir sem áttu mikið skinn og blek að láta skrásetja þessar gömlu sögur og ljóð og jafnvel láta eina og eina úr samtímanum fylgja með.
En ritlistin var lengi lengi hin mikla list skrifaranna, þeirra sem kunnu á bókfellið. Það varð þeim keppikefli að hver síða í handriti væri flott. Skrifararnir voru í raun að fást við myndlist. Og bækurnar eftir að þær komu til voru langt fram eftir öldum innbundnar svo með skrauti og gyllingum, að það fór ekki á milli mála að bókagerðarmenn voru að gera eithvað til að gleðja augað. Það eimir enn eftir af þessu, en bókaskreytingar nútímans og kápumyndir sýna einungis sorglega afturför í frágangi bóka.

En það er innvolsið sem skiptir máli og svo fljótt sé farið yfir sögu er sagt að Cervantes hafi markað upphaf nútímabókmennta með því að skálda algjörlega upp sögupersónur sínar. Þar skildi á milli Feigs og Ófeigs, því kvæðin og sögurnar höfðu fram að því mestmegnis verið um kónga og raunverulegar prinsessur og þó drekar kæmu oft við sögu voru þeir ákaflega raunverulegir í hugum fólks í den.

Og nú er ritlistin öllum frjáls og sífellt koma út fleiri og fleiri bækur, sem færri og færri lesa. Og alltaf er verið að skrifa. Tölvuvæðingin býr svo um hnútana að þegar fólk er ekki að kjafta saman í síma getur það verið í tölvusamskiptum, jafnvel gert hvorutveggja í einu. ( Táningar að tala í síma og skrifa á MSN í tölvunni samtímis er ekki óalgeng sjón á táningaheimilum ) og það eru SMS skilaboðin sem eru hnýtt í styttingar og dulmál rétt einsog skinnhandritin. Og svo bætist bloggið við. Jedúddamía.

Allir eru allt í einu að skrifa, en eftir sem áður ákaflega fáir sem skrifa “ Litterature “.

Wednesday, December 06, 2006

Þrettándi Listapistill


Hverjum þykir sinn fugl fagur.
Þetta á náttúrlega við um listir sem annað. Í myndlist vill vaða uppi hinn unggæðingslegi hroki, að gamlar aðferðir séu ónýtar. Ritlistarmenn deila um ágæti síns máls. Ljóðið er toppurinn segja þeir sem fást við það. En stóryrtastir allra vilja þó vera tónlistarmenn.
“Tónlistin er göfugust allra lista”, er setning sem fer oft á flug og tónlistarmenn og unnendur telja yrðinguna ekki vera skoðun heldur staðreynd. En tónlist er list nótugæjanna. Alþýðutónlist verður ekki list nema einhvað tónskáldið finni þjóðlag og færi það úr dúr í moll og menn halda ekki vatni.
Ópera mun svo vera langefst í tónlistapýramídanum.
Gamall vinur sagði eitt sinn í mín eyru, að það væri undarlegt með óperusýningar. Boðið væri upp á í flestum tilfellum lélega myndlist (leiktjöld og búningar ), lélegan og oft hjákátlegan leik ( tenór með bumbuna niður á hné sem Rómeó að biðla til Júlíu sópran sem kemst varla fyrir á sviðinu ), en tónlistin og söngurinn og samruni þessa alls gerði þetta að himneskri upplifun.

Tónlist er líka alltumlykjandi einsog myndlistin, svo mætti ég stundum biðja um ÞÖGN. Hvers vegna er fólk svona hrætt við þögnina. Er ekki hægt að tala saman án tónlistar í bakgrunni. Má ekki bregða sér bæjarleið í bílnum án þess að þenja græjurnar. Og hversvegna í ósköpunum er ekki hægt að sýna neitt í bíó eða sjónvarpi án þess að keyra tónlist yfir ? Myndir af myndlistasýningu á sjónvarpsskjánum eru þær óhugsandi án strengjakvartetts ? Þarf landslag synfóníu til þess að við skiljum ? “Já nú sé ég að þetta er sú fimmta og fjall”.
Eða er bara verið að hamra þann boðskap inní undirmeðvitundina að tónlistin sé á toppnum.

Tólfti Listapistill


Myndlist er frekust allra listgreina. Enda kanski ekki skrýtið að hún belgi sig, það verður nefnilega ekki þverfótað fyrir myndlist. Öll sýnileg mannanna verk eru einfaldlega á einhvern hátt tengd myndlist.
Myndlist er svo alltumlykjandi, að orðið List táknar í hugum margra Myndlist. Saga Listarinnar fjallar bara um myndlist. Við tölum um bókmenntir og listir, en segjumst samt ekki vera að afneita bókmenntum sem listgrein. Á “móðurtungunni” ensku er Art ( þýtt list ) einungis notað um myndlist, en The Arts eru listir almennt. Listasafnið á Akureyri er ekki gömul stofnun, en fyrir myndlist eingöngu, heitir þó ekki Myndlistasafn. Safnið hefur haft tvo forstöðumenn og það er gaman að hugsa til þess að stór hluti af jómfrúaropnunarræðum þeirra var samhljóða, sem sé undirstrikunin á því að myndlistin væri allsstaðar. Við göngum í myndlist, ökum í myndlist, búum í myndlist, jafnvel minnstu smáatriði lífs okkar væru háð myndlist, klipping og förðun, gleraugu, klukkur, hnífapör og nærbuxur.
Myndlist og tíska eru í eilífum fullnægingarlitlum samförum. Það er heimtað nýtt, nýtt, nýtt, nýtt, nýtt – fjandinn hafi það þótt það nýja sé gamalt – og það er heimtað meira. En svona verður þetta að vera og einstaka sinnum er það nýja spennandi, jafnvel fyrir gamla íhaldssama jálka.

Myndlist er vissulega rígmontin, en það er eðli þeirra sem eru uppá hól að hreykja sér. Og fyrir myndlistina er öll veröldin rými. ( Rými er reyndar hugtak sem myndlistarmenn sérstaklega hafa misnotað svo mjög að . . . . “afsakið meðan að ég æli” .)
En reyndar getum við ekki neitað því, að alheimurinn er ansi verkleg innsetning.

Ellefti Listapistill

Ef Darwin hefði hefði verið listrýnir og ritað um uppruna tegundanna út frá þróun listarinnar, myndi rit hans varla hafa valdið hatrömmum deilum, vegna þess að þó list sé skírt dæmi um endalausa þróun tegundanna dettur fjandakornið engum í hug að hún verði ekki til við sköpun, jafnvel svolítið guðlega svo mjög er listin upphafin.

Eitthvað agnarsmátt upphaf er allri listsköpun sögunnar sameiginlegt, einhverskonar pirrandi litningur á sálinni. Við eigum að sjálfsögðu ekki möguleika á að rekja söguna frá upphafi listþróunar þó vissulega sé urmull steingervinga í farveginum, en víst er að einhverntíma í fyrndinni hefur fólkinu ekki fundist nóg að éta eða vera étin, sofa og eðlast. Það þróaði með sér tungumál til að segja frá, einhver fór að humma eða berja einhverju í eitthvað og svo þegar eldurinn var orðinn almenningseign var hægt að maka eitthvað með sóti eða kolaðri spýtu. Listin þarf ekki svo mikið.
En kanski má ekki kalla þessi fyrstu villuráfandi skref listsköpun, því einsog við munum þá varð listhugtakið ekki til fyrr en í Evrópu svo ævintýralega löngu eftir upphafið. Síðan er líka liðinn nokkur tími og fólki hættir til að gleyma að þróunin hafi átt sér upphaf.

Auðvitað á list allt sameiginlegt með annarri þróun tegunda. Útfrá fyrsta listaeinfryminu hafa sprottið margir tegundaflokkar, listgreinar, og sérhver tegund kvíslast í margar ættir, stútfullar af stefnum og flokkum, skapandi og túlkandi. Einsog í þróun dýra og planta hafa listgreinar staðnað á þróunarbrautinni, sumar tegundir dáið út aðrar þróast enn og enginn sér fyrir endann fremur en upphafið.Víst um það að listin á sína krókódíla og risaeðlur. Listin á líka samsvörun við allan þann aragrúa af finkum sem þróast hafa eftir því hvar og hvað þær éta.

Og listin á líka sínar rottur og menn.