Wednesday, December 06, 2006

Þrettándi Listapistill


Hverjum þykir sinn fugl fagur.
Þetta á náttúrlega við um listir sem annað. Í myndlist vill vaða uppi hinn unggæðingslegi hroki, að gamlar aðferðir séu ónýtar. Ritlistarmenn deila um ágæti síns máls. Ljóðið er toppurinn segja þeir sem fást við það. En stóryrtastir allra vilja þó vera tónlistarmenn.
“Tónlistin er göfugust allra lista”, er setning sem fer oft á flug og tónlistarmenn og unnendur telja yrðinguna ekki vera skoðun heldur staðreynd. En tónlist er list nótugæjanna. Alþýðutónlist verður ekki list nema einhvað tónskáldið finni þjóðlag og færi það úr dúr í moll og menn halda ekki vatni.
Ópera mun svo vera langefst í tónlistapýramídanum.
Gamall vinur sagði eitt sinn í mín eyru, að það væri undarlegt með óperusýningar. Boðið væri upp á í flestum tilfellum lélega myndlist (leiktjöld og búningar ), lélegan og oft hjákátlegan leik ( tenór með bumbuna niður á hné sem Rómeó að biðla til Júlíu sópran sem kemst varla fyrir á sviðinu ), en tónlistin og söngurinn og samruni þessa alls gerði þetta að himneskri upplifun.

Tónlist er líka alltumlykjandi einsog myndlistin, svo mætti ég stundum biðja um ÞÖGN. Hvers vegna er fólk svona hrætt við þögnina. Er ekki hægt að tala saman án tónlistar í bakgrunni. Má ekki bregða sér bæjarleið í bílnum án þess að þenja græjurnar. Og hversvegna í ósköpunum er ekki hægt að sýna neitt í bíó eða sjónvarpi án þess að keyra tónlist yfir ? Myndir af myndlistasýningu á sjónvarpsskjánum eru þær óhugsandi án strengjakvartetts ? Þarf landslag synfóníu til þess að við skiljum ? “Já nú sé ég að þetta er sú fimmta og fjall”.
Eða er bara verið að hamra þann boðskap inní undirmeðvitundina að tónlistin sé á toppnum.