Laugardaginn 31.janúar opnaði ég sýningu í Vestursalnum í Listasafninu á Akureyri. Yfirskriftin: "Þriggja radda þögn og Rauða", sem yndæll þýðandi þýddi sem " The Silence of three Voices and Red", þetta er englamúsík og algjör þögn.
Leikurinn í tónverkinu er að setja eingöngu þagnartákn í staðinn fyrir nótur, allt frá heilþögnum til sextíu og fjórðupartsþagna, sem eru ákaflega hraðar þagnir. Þetta er auðvitað bölvað bull, en til að snúa upp á glæpinn breyti ég áferðinni eilítið á hverjum opnunardegi.
Síðan er það hún Rauðaþögn sem trónir á hásæti, loksins komin inn í listasafn en þarf ekki lengur að bíða á tröppunum einsog hún hefur gert frá því hún varð til 2007.
Sýningin er opin til fimmtudagsins 5.febrúar, en þá mun ég rjúfa þögnina um klukkan hálf fimm með nokkrum sönglögum.
Myndirnar frá opnuninni tók mín ástkæra eiginkona Fróðný Pálmadóttir.