Wednesday, March 03, 2010

R.Mutt fékk aldrei listamannalaun

Fountain-R-Mutt-1917-1964

Á trýnisíðu Aðalheiðar Sigríðar Eysteinsdóttur spunnust í gær nokkrar umræður útfrá spurningunni um réttmæti listamannalauna. Ég blandaði mér aðeins í þetta, en sá svo að það myndi mér erfitt, því oftlega var ég alveg sammála fyrri helmingi yrðinga ýmissa álitshafa, en síðan jafn ósammála þeim síðari. En fyrr eða síðar hlýtur spurningin um listamannalaun að fara að snúast um list og hvað hún sé. Áðurnefnd umræða í gær takmarkaðist reyndar mjög við það að þar börðu gjarna myndlistamenn lyklaborð, en myndlistin er skolli frek, hefur til dæmis eignað sér hugtakið ART og á Íslandi er oft talað um LIST og þá átt eingöngu við myndlist. „Menning og listir“ er einmitt máldæmi um þessa, að mínu mati, vitleysu. En myndlistin er líka allt um vefjandi, við búum, göngum, sitjum við, á og í myndlist ef svo má segja. Það er ekki einu sinni hægt að taka viðtal í sjónvarpi við skrifstofublók eða forstjóra án þess að á bak við glytti í veggi fóðraða myndlist. Því er engin furða að fólk ruglist í ríminu.

En R.Mutt fékk aldrei listamannalaun þó hann hafi haft meiri áhrif á listina einsog hún leggur sig en margan grunar eða vill viðurkenna. Með hlandskálargjörningi sínum breytti skapari R.Mutt, franski skákmaðurinn og myndlistarmaðurinn Marcel Duchamp skilningi fólks á hvað list ER og þó einkum og sér í lagi hvað list GETUR VERIÐ. En þar sem Marcel orðaði mér betur þær vangaveltur um list, sem ég hef gert að mínum, læt ég honum eftir, að segja það sem ég hefði meðal annars viljað segja í gær.

„Þjóðfélagið gerir það sem því sýnist. Listamaðurinn skiptir engu máli, því enginn raunverulegur framleiðslugrundvöllur er til fyrir list. Listin byggir alltaf á tveimur andstæðum pólum áhorfanda og skapanda. Neisti af snertingu þeirra elur eitthvað af sér líkt og rafmagn. En það er áhorfandinn sem á síðasta orðið. Það er því ekki listamaðurinn heldur eftirtíminn sem skapar meistaraverkið. En listamaðurinn þarf ekki að gera sér neinar grillur, það kemur honum ekki við.“