Sunday, October 29, 2006

Þriðji Listapistill

Áður en lengra er haldið er best að segja það einsog það er: Listsköpun er meðvitað ferli.
Rétt einsog húsasmiður hefur frá byrjun í hyggju að skapa hús og vegagerðarmaður veg, vinnur listamaður að listsköpun. Í ákaflega grófum dráttum getur því ekkert verið eða orðið list nema höfundurinn hafi meðvitað skapað eða reynt að skapa list. Börn skapa því ekki list með pári sínu nema þeim sé þessi listhugsun hugleikin. Börn skapa hinsvegar margt sætt og flott og kanski miklu betra en það sem kallað er list, en það er nú önnur saga. Það er leiðinlegt fyrir suma að þurfa að skilja þetta. Náttúran er heldur ekki list, eins flott og hún getur nú verið. Hinsvegar getur málverk af henni eða ljósmynd verið list þó það hljómi ef til vill undarlega.
En að því ber að hyggja að jafnvel þó listaspíra skapi eitthvað og sé ákaflega meðvituð um listferlið allt, er alls ekki öruggt að útkoman verði list. Það er nefnilega langt í frá algildur sannleikur að það sem lærður listamaður skapar og sýnir sé list, einsog sumir listhrokagikkir halda blákalt fram. Með sömu röksemdafærslu mætti segja að allt sem lærður múrari skapaði og gerði sýnilegt væri múrverk.