Nú er gaman að koma uppá fjórðu hæð í Strandgötunni. Stórflottar myndir Rutar Ingólfsdóttur prýða nú stigaganginn og full ástæða til að hvíla sig fyrir síðasta áfangann og virða fyrir sér þetta fallega verk. Jörð, vatn, loft og eldur uppá fjórðu.
Friday, April 23, 2010
Tuesday, April 20, 2010
Skáldafætur og skipuleggjenda LitluLjóð
Litla Ljóðahátíðin var um síðustu helgi í Populus Tremula og á Möðruvöllum. Hér er skrásetning á fótastöðu skáldanna og skipuleggjenda þeirrar Litlu við lespúltin. Hugmyndina átti Gunnar Jóhannesson og hann tók nokkrar myndir en KP kláraði dæmið.
Tuesday, April 13, 2010
Fjölskyldumyndir 11.4.
Að loknum vinnudegi mínum afmælisdaginn 11.apríl, fórum við í Hríseyjargötuna til Önnu að kveðja litlu prinsessuna Heklu Karen,sem nú er kominn aftur í Vopnafjörðinn, en bróðir hennar Viktor Daði verður áfram hjá mömmu sinni. Í tilefni dagsins voru teknar nokkrar ljósmyndir áður en börnin fóru að sofa.
Síðan litum við Fróðný í kaffi til mömmu og Fróðný notaði tækifærið og tók myndir af okkur. Merkilegt að svona lítil og nett kona skuli hafa fætt svona stóran belg, en það er nú önnur saga.
Sunday, April 11, 2010
Ég vil þakka
Enn einn árhringurinn er að smeygja sér upp á gjörðina. Ég vil þakka móður minni og föður mínum heitnum lífið sem þau gáfu mér, þó ef til vill hafi ég ekki spilað rétt úr gefnum spilum. Ég vil þakka ástkærri eiginkonu minni, án hennar væri ég algjör áni. Ég vil þakka fjölskyldu minni, bróður, stúpdætrum, barnabörnum konu minnar og góðum skyldmennum. Ég vil þakka vinunum og vinnufélögum. Næsta ár verður partí. Skál !
Saturday, April 10, 2010
Ísfugl og Köld slóð
Þessi fugl var að gogga á eldhúsgluggann okkar á fjórðu hæðinni í liðinni páskaviku.
Og þá vikuna þurfti líka að klofa snjó til að komast að og frá vinnustofunni. Ég bind miklar vonir við að hlýindin núna reki Ísfugla til sumarheimkynna og kaldar slóðir hverfi.
Monday, April 05, 2010
Rauðaþögn : Opnun á Karólínu.
Ég opnaði fyrstu sýninguna sem ber titilinn “ Rauðaþögn á ferð og flugi “ á Café Karólínu laugardaginn 3.4.2010. Sú rauða kunni vel við sig á barnum og skapari hennar og þjónn enn betur svo myndataka varð ekki mjög markviss. Þarf að fara aftur og taka myndir af sýningunni sjálfri, en sådan er det så meget.
Hljómsveitirnar Mogadon og Skrokkabandið spiluðu þó nokkur lög í opnuninni og þetta var allt saman gaman.